Evrópudómstóllinn hefur hafnað kröfum ungverskra og slóvakskra stjórnvalda varðandi ákvörðun ráðherraráðs Evrópusambandsins um skiptingu kvótaflóttamanna á milli aðildarríkjanna.
Málið snýr að ákvörðun innflytjendaráðherra aðildarríkjanna sem tekin var á haustdögum 2015, þegar flóttamannastraumurinn til Evrópu var sem mestur. Var þar ákveðið að dreifa allt að 160 þúsund flóttamönnum, sem höfðu komið til Grikklands og Ítalíu, á milli aðildarríkjanna.
Ungverjar og Slóvakar mótmæltu ákvörðuninni, sem tekin var eftir atkvæðagreiðslu í ráðherraráðinu í Brussel. Vildu þeir meina að leiðtogar aðildarríkjanna hefðu átt að taka samhjóða ákvörðun um málið.
Þessu er Evrópudómstóllinn ekki sammála og segir ákvörðun ráðherraráðsins í samræmi við meginregluna um meðalhóf sem fram kemur í sáttmála sambandsins.
Framkvæmdastjórn ESB vonast nú til að hægt verði að hraða skiptingu kvótaflóttamannanna milli aðildarríkjanna. Einungis hafa um 28 þúsund af þeim 160 þúsund flóttamönnum sem samkomulagið kvað á um, verið fluttir til aðildarríkjanna.
Framkvæmdastjórnin lagði á sínum tíma áherslu á að kvótarnir væru bindandi fyrir öll aðildarríkin. Auk Ungverja og Slóvaka mótmæltu Tékkar og Rúmenar samkomulaginu.
Ungverjar hafa ekki tekið á móti einum einasta kvótaflóttamanni frá því að kvótarnir voru samþykktir fyrir tveimur árum.
Hafnar kröfum Ungverja og Slóvaka um skiptingu flóttamanna
Atli Ísleifsson skrifar
