Erlent

Skotárásin í Flórída: Aðstoðarþjálfari dó hetjudauða

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Fótboltalið skólans staðfesti andlát Feis í dag.
Fótboltalið skólans staðfesti andlát Feis í dag. Fótboltalið MC Douglas-framhaldsskólans
Aaron Feis, aðstoðarþjálfari fótboltaliðs Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólans í Flórída, lést af sárum sínum aðfararnótt fimmtudags eftir mannskæða skotárás við skólann í gær. Feis er sagður hafa dáið hetjudauða er hann kastaði sér í veg fyrir árásarmanninn og kom nemanda í öruggt skjól.

Árásarmaðurinn, hinn nítján ára Nikolas Cruz, skaut sautján til bana í árasinni. Cruz, sem er fyrrverandi nemandi við Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólann, var handsamaður af lögreglu um klukkustund eftir árásina og er sagður svara spurningum lögregluþjóna. Hann hefur verið ákærður fyrir minnst sautján morð.

Sjá einnig: Trump segir útlit fyrir að árásarmaðurinn hafi átt við geðræn vandamál að stríða

Kastaði sér í veg fyrir árásarmanninn

Í frétt breska ríkisútvarpsins er nokkurra fórnarlamba árásarinnar minnst, þar á meðal fyrrnefnds Aarons Feis. Hann starfaði sem aðstoðarþjálfari fótboltaliðs skólans og gegndi einnig stöðu öryggisvarðar. Vitni að árásinni segja Feis hafa bjargað lífi a.m.k. eins nemanda við skólann en látið lífið við hetjudáðina.

Stúlka, sem leitaði til aðalþjálfara liðsins í kjölfar árasarinnar, tjáði honum að Feis hefði kastað sér á milli hennar og árásarmannsins. Í leiðinni hafi hann ýtt henni í öruggt skjól inn um dyr á gangi skólans.. Sjálfur varð Feis þá fyrir skotum úr riffli árásarmannsins og lést af sárum sínum aðfararnótt fimmtudags.

Nemendur skólans minntust Feis á samfélagsmiðlum í gær og í dag en andlát Feis var staðfest á Twitter-reikningi fótboltaliðs MC Douglas-framhaldsskólans.

Þá hafa fleiri nöfn fórnarlambanna sautján verið birt. Jamie Guttenberg, Alyssa Alhadef og Nicholas Dworet létust öll í árásinni. Samkvæmt Facebook-síðum þeirra og yfirlýsingum frá aðstandendum voru þau öll nemendur við skólann þar sem árásin var gerð í gær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×