Erlent

Bjóða 2600 almennum borgurum í brúðkaupið

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Harry Bretaprins og Meghan Markle.
Harry Bretaprins og Meghan Markle. Vísir/Getty
Harry Bretaprins og Meghan Markle, sem trúlofuðu sig í fyrra og hyggjast ganga í hjónaband þann 19. maí næstkomandi, munu bjóða 2640 almennum borgurum til brúðkaups síns í Windsor-kastalanum í London. Breska dagblaðið The Guardian greinir frá.

Fulltrúar Bretadrottningar munu velja sérstaklega 1200 téðra almennra borgara. Í frétt Guardian segir að þess verði sérstaklega gætt að boðsgestir verði á öllum aldri og frá stöðum víðsvegar um Bretland.

Þá mun fólkið fá tækifæri til að fylgjast með því þegar brúðhjónin tilvonandi og aðrir gestir mæta í brúðkaupið, auk þess sem hægt verður að virða fyrir sér hin nýgiftu hjón og fylgdarlið þeirra að athöfn lokinni. Miðarnir veita þó hvorki aðgang að athöfninni sjálfri né brúðkaupsveislunni.

Á meðal annarra almennra borgara sem fá boðskort í brúðkaupið eru starfsmenn hjálpar- og góðgerðarsamtaka á Bretlandi og nemendur skóla í grennd við Windsor-kastalann. Allir miðarnir munu auk þess vera merktir með nöfnum boðsgesta til að koma í veg fyrir endursölubrask.

Harry Bretaprins og bandaríska leikkonan Meghan Markle trúlofuðu sig í nóvember á síðasta ári. Mikil eftirvænting ríkir í Bretlandi vegna brúðkaups skötuhjúanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×