Rússar hafa lýst því yfir að þeir hyggist vísa 23 breskum erindrekum úr landi. Um er að ræða svar Rússlands við brottvísun 23 rússneskra erindreka úr Bretlandi í kjölfar taugaeitursárásarinnar gegn rússneskum njósnara og dóttur hans í Bretlandi. Bretar saka Rússa um að standa að baki árásinni.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, tjáði blaðamönnum þar í landi í fyrradag að breskum erindrekum yrði „pottþétt“ vísað úr landi og það myndi gerast brátt.
Í yfirlýsingu frá rússneska utanríkisráðuneytinu segir að bresku erindrekunum verði vísað úr landi innan viku. Þá hafa erindrekarnir verið lýstir yfir sem óvelkomnir í Rússlandi (e. persona non grata). Í yfirlýsingunni segir einnig að breska ráðgjafarnefndin í Rússlandi verði lögð niður, auk þess sem leyfi til opnunar á ræðismannsskrifstofu Breta í Sankti Pétursborg verði afturkallað.
Sergei Skripal, rússneskur fyrrverandi njósnari, og dóttur hans Yuliu Skripal var byrlað taugaeitur þann 4. mars síðastliðinn. Þau fundust meðvitundarlaus á bekk í Salisbury í Wiltshire í suðurhluta Englands og liggja nú þungt haldin á sjúkrahúsi.
Rússar vísa 23 breskum erindrekum úr landi

Tengdar fréttir

Bretar ætla að reka 23 rússneska njósnara úr landi
Það var gert eftir að Rússar neituðu að útskýra hvernig taugaeitur sem þróað var í Rússlandi var notað til þess að reyna að myrða fyrrverandi njósnarann Sergei Skripal í Bretlandi.

Rússar ætla að víkja breskum erindrekum úr landi
Það verður gert eftir að Bretar vísuðu 23 erindrekum, sem Theresa May sagði vera njósnara, í kjölfar taugaeitursárásar á fyrrverandi rússneskan njósnara og dóttur hans í Bretlandi.

Rússar segjast ekki bera ábyrgð á eitrun Skripal
Vilja aðgang að taugaeitrinu sem notað var og segja Breta hafa meinað þeim aðgang að sönnunargögnum.