Erlent

Facebook kynnir breytingar á gagnavernd

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mark Zuckerberg er stofnandi Facebook.
Mark Zuckerberg er stofnandi Facebook. vísir/getty
Facebook kynnti í dag ýmsar breytingar á samfélagsmiðlinum sem eiga að auðvelda notendum hans að sjá og ná í gögn sem miðillinn hefur um þá. Á meðal þeirra breytinga sem gerðar verða eru ný útgáfa af því hvernig stillingarnar birtast í farsímum notenda og svo tól sem nefnist „Náðu í upplýsingarnar þínar“ (e. Access Your Information).

Notendum verður gert kleift að staðsetja, stjórna, hlaða niður og eyða persónulegum gögnum sínum á Facebook en breytingarnar tengjast nýrri persónuverndarlöggjöf sem tekur gildi í Evrópu í maí. Þá má ætla að nýlegar fréttir af misnotkun fyrirtækisins Cambridge Analytica á gögnum frá Facebook hafi flýtt fyrir því að fyrirtækið kynnti þessar breytingar.

Auk þess eru margir notendur miðilsins afar ósáttir við að Facebook hafi safnað upplýsingum um símtöl þeirra og smáskilaboð. Um er að ræða söfnun upplýsinga sem gerð var í gegnum Android-stýrikerfið en Facebook sagði að notendur hefðu samþykkt gagnasöfnunina. Svo virðist sem að fæstir hafi hins vegar gert sér grein fyrir samþykkinu þar sem það var í „smáa letrinu.“

Á meðal þeirra breytinga sem verða gerðar á gagnavernd notenda Facebook er að nú verður hægt að skoða friðhelgistillingar á einum stað, breyta þeim og laga til ef notandi vill það. Þá mun Facebook gera notendum kleift að hlaða niður meira af gögnum sínum af miðlinum en áður.

Tólið „Náðu í upplýsingarnar þínar“ leyfir Facebook-notendum síðan að eyða færslum, „lækum“, athugasemdum og leitarsögu á miðlinum.


Tengdar fréttir

SpaceX hverfur af Facebook

Twitter-notandi skoraði á Elon Musk að eyða Facebook-síðu SpaceX. Skömmu síðar hvarf síðan sem hafði 2,7 milljónir fylgjenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×