Erlent

Dreifa fölsuðum myndum af ungri baráttukonu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Emma González í March For Our Lives-fjöldagöngunni á laugardag.
Emma González í March For Our Lives-fjöldagöngunni á laugardag. Vísir/getty
Fölsuðum myndum og myndböndum af Emmu González, einni af nemendum Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólans sem komst lífs af úr skotárás í febrúar síðastliðnum, hefur verið dreift um netið síðustu daga. Myndirnar sýna González rífa í sundur stórt blað sem hefur verið breytt í bandarísku stjórnarskrána með myndvinnsluforriti.

Sjá einnig: Sakaður um blekkingar eftir að hafa lifað af skotárás

González hefur orðið eitt aðalandlit baráttunnar fyrir hertri byssulöggjöf í Bandaríkjunum eftir að 17 manns voru skotnir til bana í Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólanum í Flórída-ríki í febrúar. Hún, ásamt fleiri nemendum við skólann, stóð að March For Our Lives-fjöldagöngum sem haldnar voru víðsvegar um Bandaríkin í fyrradag. Hundruð þúsunda söfnuðust saman í göngunum og þótti tilfinningaþrungin ræða González einn af hápunktum dagsins.



Málstaður ungmennanna á ekki upp á pallborðið hjá stórum hluta Bandaríkjamanna. Einhverjir hafa fullyrt að hert byssulöggjöf muni takmarka stjórnarskrárbundin réttindi Bandaríkjamanna um byssueign. Myndir og myndbönd, sem átt hefur verið við í myndvinnsluforriti, fóru í dreifingu meðal téðs hóps á samfélagsmiðlum um helgina.

Í flestum tilvikum virðast samfélagsmiðlanotendur meðvitaðir um uppruna myndanna og dreifa þeim í ádeiluskyni en þó er ljóst að margir telja þær ófalsaðar. Á myndunum sést González rífa í sundur stórt blað sem virðist vera bandaríska stjórnarskráin.

Upprunalegu myndirnar eru hins vegar úr myndatöku fyrir tímaritið Teen Vogue en González, auk fleiri nemenda úr Marjory Stoneman Douglas-skólanum, voru fengnar til að sitja fyrir á forsíðunni í tengslum við March For Our Lives-herferðina. Á þeim myndum sést að González rífur stjórnarskrána ekki í sundur heldur veggspjald með mynd af skotmarki.


Tengdar fréttir

„Skammist ykkar“

Emma Gonzalez, einn nemandanna sem lifði af skotárás í Marjorie Stoneman Douglas High School á miðvikudag, kallaði eftir strangari skotvopnalöggjöf og gagnrýndi forsetan harðlega í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×