Between Mountains, Atómstöðin, Emmsjé Gauti, Agent Fresco og Daði Freyr munu skemmta Bræðslugestum þetta árið, en eins og áður hefur komið fram munu Sigga og Grétar og félagar í Stjórninni einnig stíga á stokk.
„Við reynum að bjóða upp á fjölbreyttan hóp listafólks því að við viljum fá fjölbreyttan hóp gesta. Í hópnum eru ungt listafólk og líka eldri kempur, þarna er rapp, raftónlist, rokk og popp og þarna geta líka einhverjir fundið nostalgíu sem er skemmtileg í bland við nýmetið,“ segir Áskell Heiðar Ásgeirsson, skipuleggjandi Bræðslunnar.
„Alltaf er líka einhver tenging við Austurlandið, í þetta skiptið er það frændi okkar og Borgfirðingurinn Óli Rúnar sem leikur á gítar í Atómstöðinni.“
Skipuleggjendur hátíðarinnar eru í þokkabót búnir að skrifa undir nýjan tólf ára samning svo að gleðin heldur áfram á Borgarfirði eystri næstu ár.