Erlent

Ted Nugent kallar eftirlifendur Parkland-skotárásarinnar „sálarlausa“

Hjalti Freyr Ragnarsson skrifar
Ted Nugent á tónleikum.
Ted Nugent á tónleikum. Vísir/Getty
Aldraði rokkarinn og NRA-stjórnarmeðlimurinn Ted Nugent fór ófögrum orðum um eftirlifendur skotárásarinnar í Parkland í Flórída í spjallþættinum The Joe Pags Show síðastliðinn föstudag.



Hann kallaði táningana, sem skipulögðu herferðina March for Our Lives, meðal annars lygara, grautarhausa og sálarlausa.

Eins og fram kemur í frétt Vox um málið er þetta ekki fyrsta sinn sem íhaldsmenn þar í landi gagnrýna pólítísk viðhorf táninganna, enda styðja þau flest hert vopnalög, en athygli vekur að Nugent gagnrýndi þau á mun persónulegri máta.

„Að ráðast á hinar góðu, löghlýðnu fjölskyldur Bandaríkjanna þegar vel þekktir og fyrirsjáanlegir morðingjar fremja þennan hrylling, flokkast djúpt í flokk sálarleysu,“ sagði Nugent meðal annars í viðtalinu. „Grey börnin. Ég óttast að segja þetta og mér sárnar það, en sönnunargögnin eru óvéfengjanleg. Þau eru sálarlaus.“

Nýverið dreifðust falsaðar myndir af Emmu Gonzales, einum skipuleggjanda herferðarinnar, að rífa stjórnarskrá Bandaríkjanna víða um samfélagsmiðla. Í kjölfar herferðarinnar komust einnig á kreik samsæriskenningar um að táningarnir séu leikarar ráðnir til að berjast fyrir málstað hertra vopnalaga.

Hér fyrir neðan má hlusta á viðtalið við Nugent í heild sinni.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×