Erlent

Óttast að Ebóla kunni að breiðast út

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Talið er að um 23 hafa látið lífið af völdum Ebólu í Kongó á síðustu dögum.
Talið er að um 23 hafa látið lífið af völdum Ebólu í Kongó á síðustu dögum. Vísir/getty
Sérfræðingar óttast að Ebólufaraldurinn kunni að vera að taka sig upp á ný í Afríkuríkinu Austur-Kongó. Á síðustu dögum hefur verið tilkynnt um 43 smittilfelli í landinu og hefur Ebólan dregið um helming hinna smituðu til dauða.

Tilfelli hafa til þessa verið bundin við dreifaðri byggðir Austur-Kongó en heilbrigðisráðherra landsins staðfesti í samtali við þarlenda fjölmiðla að læknar höfðu greint nokkur smit í borginni Mbandaka fyrr í þessum mánuði.

Það þykir mikið áhyggjuefni, borgin sé ekki aðeins mjög þéttbýl heldur er hún fjölfarin áningarstaður á leiðinni til höfuðborgarinnar Kinshasa. Því er óttast að ef ekki tekst að einangra tilfellin geti þau dreifst mjög hratt um Austur-Kongó, jafnvel alla Vestur-Afríku.

Talsmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar segir í samtali við breska ríkisútvarpið að 430 einstaklingar séu til rannsóknar vegna gruns um að hafa komist í návígi við smitbera. Stofnunin hafi sent rúmlega 4000 skammta af tilraunalyfi til Austur-Kongó á síðustu dögum og von sé á fleiri skömmtum á næstunni. Lyfið er sagt hafa gefið góða raun í síðasta Ebólu-faraldri, sem reið yfir Vestur-Afríku frá upphafi árs 2014 til 2016. Talið er að Ebólan hafi dregið um 11.300 manns til dauða á tímabilinu.

Hins vegar sé hægara sagt en gert að koma lyfinu til þeirra sem þurfa á því að halda. Sem fyrr segir eru flest tilfellin í dreifaðri byggðum þar sem rafmagn er af skornum skammti. Lyfið sé mjög viðkvæmt og þurfi að vera geymt í þartilgerðum kælum, sem sé erfitt að stinga í samband þegar ekkert er rafmagnið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×