Breska blaðið The Guardian greinir frá því hvernig stjórnvöld í Ekvador vörðu að minnsta kosti fimm milljónum dollara í leyniþjónustuaðgerð í tengslum við veru Assange í sendiráðinu þar sem hann hefur dvalið til að forðast að vera framseldur til Bandaríkjanna.
Alþjóðlegt öryggisfyrirtæki og njósnarar voru meðal annars ráðnir til að fylgjast með gestum Assange, sendiráðsstarfsmönnum og jafnvel bresku lögreglunni. Assange fékk meðal annars hakkara, aðgerðasinna, lögmenn, blaðamenn og einstaklinga sem tengjast rússneskum stjórnvöldum í heimsókn.
Njósnaði um gestgjafa sína
Svo leynilegar voru aðgerðirnar að sendiherrann sjálfur vissi ekki af þeim framan af. Rannsókn The Guardian og ekvadorskra samstarfsmanna leiðir í ljós að Rafael Correa, fyrrverandi forseti, og Ricardo Patiño, fyrrverandi utanríkisráðherra, hafi báðir lagt blessun sína yfir aðgerðirnar.Ekvadorsk stjórnvöld voru jafnvel tilbúin að veita fé í almannatengslaherferð til þess að bæta ímynd Assange. Þannig var lögmaður beðinn um að móta fjölmiðlaherferð árið 2014.
Þakklæti virðist þó ekki hafa verið Assange ofarlega í huga. Hann er sagður hafa hakkað sig inn í fjarskiptakerfi sendiráðsins og þannig fengið aðgang að bæði opinberum og persónulegum samskiptum starfsmanna þess.
Öryggisfyrirtækið sem fylgdist með gestum Assange varaði stjórnvöld í Ekvador meðal annars við því árið 2014 að Assange væri að njósna um sendiráðsstarfsmennina.