Umfjöllun og viðtöl: Fram - Víkingur Ó. | Ólsarar slógu Fram út í Safamýrinni

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Ejub Purisevic, þjálfari Víkings.
Ejub Purisevic, þjálfari Víkings. vísir/stefán
Víkingur Ólafsvík verður í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslit Mjólkurbikars karla eftir sigur á Fram í Inkassodeildarslag í 16-liða úrslitunum í dag.

Framarar náðu góðri sókn snemma en eftir það voru Ólsarar betri mest allan fyrri hálfleik og kom mark Vignis Snæs Stefánssonar á 36. mínútu ekki mikið á óvart. Fram var mikið að reyna langa bolta sem gengu ekki vel og var ekki mikið um færi hjá Fram í fyrri hálfleik. Ólsarar voru skipulagðir í sínum sóknarleik og spiluðu mikið uppá Gonzalo Zamorano Leon framherja sinn sem gekk vel.

Dómari leiksins var í aðalhlutverki mikið af leiknum og var fyrsta stóra ákvörðun sem hann tók að sleppa því að gefa Heiðari Geir rautt spjald á 42. mínútu eftir hættulega tæklingu. Á 60. mínútu fékk Guðmundur Magnússon rautt spjald í liði Fram og við það kom orka í Framara og byrjuðu þeir að sækja miklu meira eftir rauða spjaldið.

Orri Gunnarsson fékk gott færi eftir tvær mínútur af uppbótartíma en hann skaut framhjá. Mínutu seinna var Orri næstum því sloppinn einn í gegn. Þá tók Vignir Snær á sig gult en hann hafði áður fengið gult á 75. mínútu og fór því af velli. Framarar ná einu góðu færi á þessum fimm mínútum í viðbót sem voru spilaðar. Hlynur Atli Magnússon skallaði boltann mögulega inn í markið af stuttu færi með tvær mínútur eftir í uppbótartímanum en dómari leiksins dæmdi ekki mark.

Af hverju vann Víkingur Ólafsvík?

Leikurinn var kaflaskiptur en Framarar náðu ekki að klára færin sín.

Hverjir stóðu upp úr?

Hægri vængurinn hjá Ólsurum Ívar Reynir og Vignir Snær voru sprækir, einnig náði Gonzalo oft að skapa hættu fyrir framan markið hjá Fram. Miðverðir Ólsara voru einnig mjög öruggir nema í atvikinu þegar Hlynur skoraði mögulega.

Hvað gekk illa?

Framarar náðu ekki að vinna mikið af návígum í leiknum og voru oft frekar bara að sparka einhvert fram frekar en að taka menn á eða spila meðfram jörðinni.

Hvað gerist næst?

Víkingur Ólafsvík fylgjast með hvaða lið þeir fá í 8-liða úrslitum á meðan Fram tekur á móti ÍA í deildinni á sunnudaginn í toppslag.

Ejub : Væri til í að fá heimaleik í átta liða úrslitum

Ejub Purisevic var ánægður með spilamennsku sinna manna eftir leikinn. 

„Ég er mjög ánægður með leikinn, ég er kannski ekki ánægður með síðustu sjö-átta mínúturnar, það var svona dálítið fram og tilbaka. En mér finnst við bara vera allan tímann að spila vel og skipulega og agað,” sagði Ejub en það voru átta mínútur í uppbótartíma og þar fór Fram að sækja mjög mikið.

Guðmundur Magnússon leikmaður Fram fékk rautt spjald á 65. mínútu og Vignir Snær Stefánsson leikmaður Víkings Ólafsvíkur fékk sitt annað gula spjald á 93. mínútu.

„Já mér finnst að bæði vera réttmæt, leikmaður minn var á gulu spjaldi og þetta er gult spjald svo ég hef ekkert meira um það að segja”, svarar Ejub þegar hann var spurður hvort rauðu spjöldin hafi verið réttilega dæmd.

Á 95. mínútu, vilja Framarar meina að boltinn hafi farið yfir endalínuna en dómarinn dæmi ekki mark og leikurinn hélt því áfram. „Bara engin skoðun, ég var 60 metrum frá, þannig ég hef bara ekki hugmynd” svarar Ejub þegar hann var spurður hvort þetta hafi verið mark eða ekki.

„Nei, bara eina óskin er kannski að fá heimaleik, það væri ágætt, “ segir Ejub um hvort hann sé með óskamótherja í 8-liða úrslitum.

Vignir Snær Stefánsson: Spenntur að horfa á liðið úr stúkunni í 8-liða úrslitum

„Það má segja bæði sko, ég meina eitt mark, rautt spjald eða seinna gula hefði getað slept því.“ sagði Vignir Snær Stefánsson, leikmaður Víkings Ólafsvíkur eftir 1-0 sigur á Fram, spurður hvort hann álíti sig sem hetju eða skúrk eftir leikinn.

Á 93. mínútu fékk Vignir Snær sitt annað gula spjald eftir tæklingu á Orra Gunnarssyni, aðspurður hvort hann væri spenntur fyrir 8-liða úrslitum sem hann fær ekki að spila í, svaraði hann svona.

„Lítið spenntur fyrir því, spenntur að horfa á liðið en ekki spenntur að vera uppi í stúku að horfa á liðið,” sagði Vignir sem er í banni í næsta leik eftir að fá rautt spjald í endann af þessum.

Hvorki þjálfari né leikmenn Fram gáfu sig til viðtals við fjölmiðla eftir leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira