Borgarstjóri ítölsku borgarinnar Palermo á Sikiley ætlar að leyfa björgunarskipi með á sjöunda hundrað farandfólki sem bjargað var á Miðjarðarhafi að leggjast að bryggju í borginni þrátt fyrir að ný ríkisstjórn popúlista hafi lýst ítalskar hafnir lokaðar fyrir farandfólki.
Björgunarskipið Aquarius á vegum þýsku hjálparsamtakanna SOS Méditerranée hefur verið fast úti á hafi eftir að stjórnvöld á bæði Möltu og Ítalíu neituðu því um leyfi til að koma til hafnar. Um borð eru 629 manns sem var bjargað á líbísku hafsvæði.
Þrátt fyrir að málið félli undir lögsögu Ítalíu bað Matteo Salvini, innanríkisráðherra og leiðtogi Bandalagsins, annars stjórnarflokksins í nýrri ríkisstjórn popúlista og hægriöfgamanna, stjórnvöld á Möltu um að taka við skipinu. Því höfnuðu Maltverjar.
Bandalagið hefur boðað herta stefnu í innflytjendamálum og ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að loka höfnum landsins fyrir farandfólki er talið fyrsta skýra dæmið um að þá stefnu í framkvæmd.
Leoluca Orlando, borgarstjóri Palermo, sakar Salvini um að brjóta gegn alþjóðalögum með því að banna skipinu að koma til hafnar, að sögn The Guardian.
„Hann hefur enn á ný sýnt að við erum undir öfgahægriríkisstjórn,“ segir borgarstjórinn.
Borgarstjórar annarra borga á Suður-Ítalíu, þar á meðal í Napolí, Messina og Kalabríu, hafa lýst stuðningi við Palermo og segjast einnig tilbúnir að óhlýðnast skipunum ríkisstjórnarinnar.
Erlent
Vill hleypa farandfólki í land í trássi við vilja ríkisstjórnarinnar
Tengdar fréttir
Komast hvergi í land
629 flóttamönnum var bjargað á leið þeirra yfir miðjarðarhafið af skipinu Aquarius, skipið fær þó hvergi leyfi til að koma að landi.