Mótmælin mögnuðust um helgina þegar hópur fólks, líklega um 300 til 400 manns, gekk fylktu liði um vesturhluta landsins vopnaður sveðjum og öflugum skotvopnum. Ferðinni var heitið að borginni Mendi þar sem kallað var eftir afsögn forsætisráðherrans Peter O'Neill.
Enn sem komið er hefur enginn látist í mótmælunum en heimamenn óttast að eldfimt ástandið getið farið úr böndunum.
Angry supporters of a losing election candidate have burned an Air Niugini plane in #PNG's Southern Highlands. pic.twitter.com/41nCoYmW1Y
— Eric Tlozek (@EricTlozek) June 14, 2018
Papúa Nýja-Gínea mun hýsa fund APEC (Efnahagssamstarf Asíu- og Kyrrahafsríkjanna) í nóvember næstkomandi. Forsætisráðherra landsins hefur síðustu daga ítrekað reynt að sannfæra hina væntanlegu fundarmenn um að ekkert sé að óttast, eyjan sé örugg þrátt fyrir óeirðirnar. Meðal þeirra sem munu sækja fundinn verða Bandaríkjaforsetinn Donald Trump og forsætisráðherra Ástralíu, Malcom Turnbull.
Mótmælin hófust á fimmtudag þegar beiðni Joseph Kobol, frambjóðanda til ríkisstjóra, var vísað frá þarlendum dómstólum en hann dró úrslit kosninganna á síðasta ári í efa. Stuðningsmenn hans brugðust ókvæða við og kveiktu meðal annars í þotu, bæjarskrifstofum, verksmiðjum og heimili ríkisstjórans William Powi.
Búið er að lýsa yfir neyðarástandi í héraðinu þar sem mótmælin hafa staðið yfir síðustu daga. Íbúar þess mega því ekki yfirgefa heimili sín frá klukkan 18 á kvöldin til klukkan 06:00 á morgnanna. Þá hefur sendinefnd Sameinuðu þjóðanna í héraðinu verið send annað og Rauði krossinn hefur jafnframt stöðvað starfsemi sína á svæðinu.