Erlent

Enn lítið um svör varðandi hvarf MH370

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjögurra ára leit að flugvélinni var hætt fyrr á þessu ári.
Fjögurra ára leit að flugvélinni var hætt fyrr á þessu ári. Vísir/EPA
Rannsakendur gáfu í morgun út nýja skýrslu um malasísku flugvélina MH370 sem hvarf á leið frá Kulala Lumpur til Peking þann 8. mars 2014 með 239 manns um borð. Lítið er um svör í skýrslunni og segja rannsakendur að lítið verði um svör án þess að flak vélarinnar finnist. Það eina sem fram kemur er að líklegast hafi einhver vísvitandi beygt úr leið en það liggi ekki fyrir hver það gæti hafa verið.



Fjögurra ára leit að flugvélinni var hætt fyrr á þessu ári. Nokkrir muni hafa rekið á land í vestanverðu Indlandshafi en annars hefur ekkert fundist.

Það eina sem vitað er, er að beygt var af leið og flugvélinni var flogið í rúmar sex klukkustundir yfir Indlandshaf. Slökkt hafði verið á sendum vélarinnar og bárust engin skilaboð frá henni.

Þó voru langlífar samsæriskenningar kveðnar niður í skýrslunni. Meðal annars segir að engar upplýsingar hafi litið dagsins ljós sem bendi til þess að flugstjórinn eða flugmaðurinn hafi grandað flugvélinni vísvitandi og sömuleiðis sé ekkert sem bendi til þess að eitthvað hafi verið að flugvélinni sjálfri.

Þá er flugumferðarstjórn á svæðinu gagnrýnd harðlega en flugvélin hafði verið týnd í um tuttugu mínútur þegar það uppgötvaðist.

Ættingjar þeirra sem fórust með MH370 og sóttu blaðamannafundinn þar sem skýrslan var kynnt í morgun, voru ekki ánægðir með niðurstöðurnar. AFP fréttaveitan segir fólk hafa verið reitt og einhverjir hafi gengið á dyr. Þeir hafi kvartað yfir því að ekkert nýtt komi fram í skýrslunni og hún veiti engin svör um örlögg ættingja þeirra.



Samgönguráðherra Malasíu sagði að enn yrði leitað svara vegna hvarfs MH370. Vonast væri til þess að svör myndu finnast á endanum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×