Thomas Bach, formaður alþjóðlegu ólympíunefndarinnar, segir að þar sem svokallaðar e-sports hylli ofbeldi og mismunum. Því sé ekki tækt að keppa í slíku á ólympíuleikunum. E-sports er heiti tölvuleikjakeppna sem njóta mikilla vinsælda á heimsvísu og arðbærar atvinnumannadeildir og mót eru haldin víða um heiminn á hverju ári.
Þetta kom fram í viðtali AP fréttaveitunnar við Bach þar sem rætt var við hann á Asíuleikunum. Þar var nú keppt í tölvuleikjum í fyrsta sinn. Keppt var í Arena of Valor, Clash Royale, Hearthstone, League of Legends, Pro Evolution Soccer og StarCraft II.
Bach virtist þó sérstaklega andsnúinn skotleikjum.
„Svo kallaðir morðingjaleikir. Þeir, frá okkar sjónarhóli, eru þvert á gildi ólympíuleikanna og eru því óásættanlegir,“ sagði hann.
Formaðurinn keppti á árum áður í skylmingum, sem ganga eðli málsins samkvæmt út á að stinga andstæðinga með sverði, og sömuleiðis er keppt í hnefaleikum og öðrum bardagaíþróttum á ólympíuleikunum. Bach segir það þó ekki álíkt leikjum sem eru, samkvæmt honum, ofbeldisfullir.
„Auðvitað á hver bardagaíþrótt uppruna sinn í raunverulegum bardögum á milli fólks. Íþróttir eru þó siðmenntuð tjáning þessa. Ef þú ert með e-leiki sem snúa að því að drepa einhvern, þá er það ekki samkvæmt ólympískum gildum okkar.“

