Erlent

Florence stefnir hraðbyri í átt að austurströnd Bandaríkjanna

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Gervitunglamynd af Florence. Flórída sést uppi til vinstri.
Gervitunglamynd af Florence. Flórída sést uppi til vinstri. Vísir/AP
Hitabeltisstormurinn Florence hefur sótt í sig veðrið undanfarna sólarhringa og er nú flokkaður sem fellibylur. Florence magnaðist mjög í gærmorgun er hún mjakaði sér yfir Atlantshafið og í átt að austurströnd Bandaríkjanna.

Veðurfræðingar telja að vindhraðinn hafi náð um 120 kílómetra hraða á klukkustund þegar Florence var stödd um 1.200 kílómetra suðaustur af Bermúda. Þó erfitt sér að áætla leið Florence næstu daga með nákvæmum hætti er ljóst að fellibylurinn stefnir vestur í átt að meginlandi Bandaríkjanna.

Fellibyljamiðstöð Bandaríkjanna hefur sagt að íbúar á víðfeðmu strandsvæði frá norðurhluta Flórída til Norður-Karólínu ættu að undirbúa sig fyrir meiriháttar skell seinna í þessari viku. Yfirvöld í Karólínuríkjunum báðum hafa hvatt íbúa til að gera viðeigandi ráðstafanir. Neyðarástandi hefur þegar verið lýst yfir í Suður-Karólínu og Georgíu.

„Við nálgumst nú hápunkt fellibyljatímans og við þekkjum vel þá óvissu sem fylgir þessum stormum og það mikla afl sem þeir búa yfir,“ sagði Roy Cooper, ríkisstjóri í Norður-Karólínu, í samtali við fréttaveitu AP. Hann hvatti fólk til að kynna sér helstu leiðir frá strandsvæðum og fylla á bílana sem fyrst svo að hægt verði að yfirgefa svæðin með stuttum fyrirvara.

Þó að Florence sé enn langt frá landi er hún þegar farin að láta á sér kræla við strendur Bermúda og Bandaríkjanna en öldugangur þar er farinn að aukast mjög.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×