Fornleifafræðingar hafa fundið 42,6 milljón ára steingerving af ferfættu hvaldýri við strendur Perú. Eru vísbendingar um að dýrið hafi getað gengið á landi og standa vonir til að fundurinn kunni að varpa nýju ljósi á þróun spendýrsins.
Sagt er frá því að frétt Guardian að hið um fjögurra metra langa spendýr, Peregocetus pacificus, sé mikilvægur hlekkur fyrir vísindamenn til að skilja hvernig hvalurinn gat aðlagast lífi í sjó.
Talið er að fjórir fætur dýrsins hafi verið nægilega sterkir til að bera þunga dýrsins. Er talið að hvalurinn hafi þannig getað haldið til sjós og svo aftur upp á land. Þar sem fingur og tær hafi verið tiltölulega mjóar telja vísindamenn að það hafi reynst dýrinu nokkuð erfitt að hreyfa sig á landi.
„Við teljum að hann hafi leitað fæðu í vatninu og að hreyfigetan hafi verið mun meiri í vatni en á landi,“ segir belgíski fornleifafræðingurinn Olivier Lamber, sem fór fyrir rannsókninni.
Niðurstöður hennar birtust í Current Biology.
Erlent