Erlent

Gríðarlegar hörmungar í Mósambík

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Kenneth hefur skilið eftir sig slóð eyðileggingar í Mósambík.
Kenneth hefur skilið eftir sig slóð eyðileggingar í Mósambík. AP/Saviano Abreu
Heilu bæirnir eru í rúst í Mósambík og að minnsta kosti fimm eru látin af völdum hitabeltislægðarinnar Kenneth, sem gekk þar á land í síðustu viku. Kenneth er annar stóri stormurinn sem herjar á Afríkuríkið á tveimur mánuðum en slíkt hefur aldrei áður gerst í skráðri sögu landsins.

The Guardian greindi frá því að í borginni Pemba í norðurhluta landsins, sem telur um 200.000 íbúa, sitji fjölmargir fastir vegna ört hækkandi flóða. Fleiri svæði eiga við sams konar vanda að stríða. Spár gera ráð fyrir því að úrkoma vegna Kenneths verði um tvöföld á við Idai, síðasta storm.

„Flóðin hafa reynst mikil hindrun í björgunarstarfi okkar og tilraunum til þess að komast til afskekktari byggða. Ef ástandið er eins annars staðar í norðurhluta landsins og það er í Pemba þá erum við að horfa upp á miklar hörmungar,“ sagði Matthew Carter hjá Rauða krossinum á svæðinu.

Samkvæmt Bloomberg er talið að um 160.000 séu í bráðri hættu af völdum veðursins. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem fram kom að 368.000 börn væru í hættu vegna stormsins og gætu þurft á aðstoð að halda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×