Erlent

Fellibylurinn máði þorp af yfirborði jarðar

Kjartan Kjartansson skrifar
Kenneth hefur skilið eftir sig slóð eyðileggingar í Mósambík.
Kenneth hefur skilið eftir sig slóð eyðileggingar í Mósambík. AP/Saviano Abreu
Hjálparstarfsmenn segja að fellibylurinn Kenneth hafi þurrkað út heilu þorpin í Mósambík. Ummerkin séu eins og að jarðýtu hafi verið ekið yfir þorpin. Úrhellisrigning er enn á hamfarasvæðinu sem veldur enn frekari flóðum.

Að minnsta kosti fimm manns hafa farist eftir að Kenneth gekk á land við Delgado-höfða á norðurströnd Mósambík á fimmtudagskvöld. Fjöldi hverfa í borginni Pemba þar sem um 200.000 manns búa eru sögð á floti. Hætta er á frekari flóðum og aurskriðum á svæðinu, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Fulltrúar mannúðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna segja að gríðarleg eyðilegging hafi átt sér stað víða á Delgado-höfða. Sums staðar nái flóðvatnið manneskju upp í mittishæð.

Um 900 manns fórust þegar annar öflugur fellibylur gekk yfir Mósambík, Malaví og Simbabve í mars.


Tengdar fréttir

Annar manndrápsstormur skellur á Mósambík

Að minnsta kosti einn er látinn eftir að hitabeltislægðin Kenneth gekk á land í Mósambík á fimmtudag. Frá þessu greindu stjórnvöld í Afríkuríkinu í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×