Erlent

Konur og börn myrt í ætt­bálka­erjum í Papúa Nýju-Gíneu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bærinn Karida er á miðri Papúa Nýju-Gíneu.
Bærinn Karida er á miðri Papúa Nýju-Gíneu. google maps
Að minnsta kosti fimmtán manns, allt konur og börn, voru myrt í Hela-héraðinu í Papúa Nýju-Gíneu á mánudagsmorgun. Talið er að árásin tengist ættbálkastríði sem geisað hefur í landinu síðustu ár að því er fram kemur á vef Guardian.  

Morðin voru framin í árás sem gerð var á þorpið Karida en þar búa um 800 manns. Í svari við fyrirspurn Guardian segir Philip Piuma, yfirmaður heilsugæslunnar í Karida, að sextán hafi verið myrtir, átta börn á aldrinum eins til fimmtán ára og átta konur, þar af tvær sem voru óléttar.

Lögreglan hefur svo sagt að fimmtán manns hafi látist, tíu konur og fimm börn, en Guardian hafði ekki náð tali af lögreglunni.

Árásarmennirnir notuðu bæði byssur og hnífa og segir Pimua að árásin hafi verið sú versta sem hann hafi orðið vitni að og líka sú versta í sögu landsins.

Hann segir að óvinir hafi gert árásina og að hún tengist að öllum líkindum ættbálkaerjum sem hafa staðið yfir í mörg ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×