Leikjavísir

Fortnite-kappar bítast um hundruð milljóna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Búið er að koma upp heljarinnar sviði í Arthur Ashe-höllinni þar sem tölvuleikjaspilarar munu leika listir sínar fyrir framan tugþúsundir áhorfenda.
Búið er að koma upp heljarinnar sviði í Arthur Ashe-höllinni þar sem tölvuleikjaspilarar munu leika listir sínar fyrir framan tugþúsundir áhorfenda. Getty/Steven Ryan
Heimsmeistaramótið í fjölspilunartölvuleiknum Fortnite hefst í New York í dag. Mótið stendur yfir alla helgina og munu 100 keppendur ekki aðeins berjast um hinn eftirsótta heimsmeistaratitil heldur jafnframt rúmlega 360 milljónir króna í verðlaunafé.

Um er að ræða mesta verðlaunafé sem nokkurn tímann hefur verið útdeilt á rafíþróttamóti en heildarfjárhæð vinninga á Fortnite-mótinu nemur alls rúmlega 3,6 milljörðum króna. Allir 100 keppendurnir, sem fæstir hafa náð 16 ára aldri, fá að minnsta kosti 6 milljónir króna í sinn hlut fyrir það eitt að öðlast þátttökurétt á mótinu.

Verðlaunaféð hækkar þó hratt eftir því sem betur gengur. Þannig munu keppendur sem hafna í öðru, þriðja og fjórða sæti allir fá meira en hundrað milljónir króna í vasann.

Flestir keppendurnir á heimsmeistaramótinu eru frá Bandaríkjunum en alls eiga 30 þjóðir sinn fulltrúa. Þá munu jafnframt tugþúsundir áhorfenda fylgjast með mótinu, sem fram fer í Arthur Ashe-tennishöllinni í New York, og áætlað er að milljónir til viðbótar fylgist með beinu streymi í gegnum netið.

Áhorfendafjöldinn er í samræmi við vinsældir Fortnite en talið er að um 250 milljón manns spili leikinn reglulega. Um er að ræða skotleik sem snýst um að skjóta þá sem eru í kring í von um að standa uppi sem eini aðilinn eftirlifandi.

Vísir mun sýna beint frá mótinu, sem hefst klukkan 16:15 í dag, en nánar má fræðast um heimsmeistaramótið í Fortnite með því að smella hér.


Tengdar fréttir

Féþúfan Fortnite?

Vinsælasti tölvuleikur heims um þessar mundir er Fort­nite. Ekkert kostar að sækja leikinn og spila, en þó hafa framleiðendurnir, Epic Games, þénað jafnvirði á annað hundrað milljarða króna síðan leikurinn var gefinn út fyrir ári.

Leikjaspilarar fái sína deild í íþróttafélögum

Tillögu Sjálfstæðisflokksins um deildir fyrir rafíþróttir innan íþróttafélaga vel tekið í borgarstjórn. Borgarfulltrúi segir breytingar geta rofið félagslega einangrun barna og ungmenna. Formenn helstu íþróttafélaga styðja tillöguna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×