Enski boltinn

Jóhann Berg skoraði í frábærum sigri Burnley | Draumabyrjun Potter

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jóhann Berg fagnar marki sínu.
Jóhann Berg fagnar marki sínu. vísir/getty
Jóhann Berg Guðmundsson skoraði í 3-0 sigri Burnley á Southampton í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Staðan var markalaus í hálfleik en Burnley skoraði þrjú mörk á tólf mínútna kafla í seinni hálfleik.

Á 63. mínútu kom Ashley Barnes Burnley yfir eftir vandræðagang í vörn Southampton. Barnes bætti öðru marki við á 70. mínútu með skoti af stuttu færi eftir fyrirgjöf Eriks Pieters.

Á 75. mínútu vann Jóhann Berg boltann af Ryan Bertrand, fór inn á vítateiginn hægra megin og sneri boltann í fjærhornið. Einkar laglegt mark hjá landsliðsmanninum.



Lokatölur 3-0 og frábær byrjun á tímabilinu hjá Burnley. Á síðasta tímabili kom fyrsti sigur liðsins ekki fyrr en í 6. umferð.

Brighton byrjar tímabilið einnig af krafti en liðið vann 0-3 sigur á Watford á útivelli í fyrsta deildarleiknum undir stjórn Grahams Potter.



Brighton komst yfir á 28. mínútu með sjálfsmarki Abdoulayes Doucouré. Varamennirnir Florin Andone og Neal Maupey bættu svo við mörkum í seinni hálfleik.

Billy Sharp tryggði nýliðum Sheffield United stig gegn Bournemouth þegar hann jafnaði tveimur mínútum fyrir leikslok. Lokatölur 1-1.



Bournemouth náði forystunni með marki Chris Mepham á 62. mínútu.

Sharp, sem hefur skorað grimmt fyrir Sheffield United undanfarin ár, kom inn á sem varamaður á 82. mínútu. Sex mínútum síðar jafnaði hann með sínu fyrsta úrvalsdeildarmarki á ferlinum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×