Enski boltinn

Mourinho segist hafa átt skilið að vera rekinn frá Man. Utd en segir liðið í ár verra en í fyrra

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mourinho fór um víðan völl í gær.
Mourinho fór um víðan völl í gær. vísir/getty
Jose Mourinho segir að hann hafi átt skilið að vera rekinn frá félaginu í desember 2018 en hann var einn spekinga Sky Sports yfir leik Manchester United og West Ham í gær.

United tapaði leiknum 2-0 og er því tíu stigum á eftir toppliði Liverpool er einungis sex umferðir eru búnar en þung ský eru yfir rauða hluta Manchester-borgar þessar vikurnar.

„Ég er ekki rétti maðurinn til að svara því,“ sagði Mourinho þegar hann var spurður út í hver helstu vandræði liðsins væru. „Þeir eru langt á eftir og það er erfitt fyrir mig að svara því.“

„Ég var þarna í tvö tímabil og þá fann ég fullt af jákvæðum hlutum gerast og við vorum á leiðinni í rétta átt en svo kom þriðja tímabilið sem var augljóslega ekki nægilega gott.“







Mourinho var rekinn í desembermánuði 2018 og við tók Ole Gunnar Solskjær fyrst sem bráðabirgðarstjóri og svo fékk hann fastráðningu.

„Ég var rekinn og átti það líklega skilið því ég var ábyrgur sem stjóri liðsins en það skelfilega er að þeir eru verri nú en áður. Það er leiðinlegt. Sumir halda kannski að ég njóti þess en ég geri það ekki.“

„Það er fólk hjá félaginu sem ég elska. Ég ber mikla virðingu fyrir stuðningsmönnunum en ég sé ekki neitt gerast þarna og ég held að þeir verði í miklum vandræðum með að komast ekki bara inn í topp fjóra heldur topp sex.“

„Ég held að þetta lið sé verra en liðið á síðustu leiktíð,“ sagði bálhvass Mourinho að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×