Erlent

Ní­tján meintir hryðju­verka­menn skotnir eftir mann­skæða árás

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Rúandski herinn mætir fyrrverandi uppreisnarmönnum á landamærum Austur-Kongó og Rúanda árið 2009. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Rúandski herinn mætir fyrrverandi uppreisnarmönnum á landamærum Austur-Kongó og Rúanda árið 2009. Myndin tengist fréttinni ekki beint. getty/Susan Schulman
Öryggissveitir í Rúanda drápu 19 meinta hryðjuverkamenn sem sakaðir voru um að bera ábyrgð á árás sem varð fjórtán manns að bana. Þetta segir í tilkynningu frá lögreglunni í Rúanda.

Árásin sem gerð var á föstudag er talin hafa verið gerð af uppreisnarmönnum Hútúa í norðurhluta landsins. Yfirvöld gruna að árásin hafi verið gerð þegar uppreisnarmennirnir voru í leit að mat.

Gagnárás yfirvalda var gerð nærri landamærunum að Austur-Kongó, samkvæmt tilkynningu lögreglu.

Vopnaðir árásarmenn eru sagðir hafa gengið berserksgang og beitt hnífum, sveðjum og steinum á Musanze svæðinu nærri eldfjallaþjóðgarðinum Volcanoes National Park, sem er mjög vinsæll meðal ferðamanna vegna górilla sem þar búa.

Upphaflega sögðu yfirvöld fórnarlömbin hafa verið átta en nú hefur tala látinna hækkað upp í fjórtán. Svæðið hefur verið skotspónn uppreisnarhópa Hútúa frá Rúanda en þeir hafa lengi leitað skjóls í Austur-Kongó.

Meðal rúöndsku hópanna sem hafa leitað skjóls í Austur Kongó er hópurinn Democratic Forces for the Liberation of Rwanda, sem var stofnaður eftir þjóðarmorð Hútúa á Tútsímönnum árið 1994.

Rúöndsk lögregluyfirvöld segjast hafa náð einhverjum árásarmannanna í varðhald: „Öryggissveitirnar eltu uppi hryðjuverkamennina, drápu 19 þeirra og handtóku fimm,“ sagði talsmaður lögreglunnar í yfirlýsingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×