Enski boltinn

Roon­ey mætir á bekkinn hjá Der­by á laugar­daginn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rooney í leik með DC United en nú er hann á leið heim, til Englands.
Rooney í leik með DC United en nú er hann á leið heim, til Englands. vísir/getty
Wayne Rooney verður að öllum líkindum mættur á varamannabekkinn hjá Derby á laugardaginn er liðið spilar við QPR í ensku B-deildinni.

Rooney samdi við Derby í síðasta mánuði en hann hefur undanfarin ár leikið með DC United í MLS-deildinni. Nú snýr hann aftur til Englands og samdi við Derby til næstu átján mánaða.

Rooney mun ekki bara spila með Derby heldur verður hann í þjálfarateymi Phillip Cocu. Hann getur ekki spilað með Derby fyrr en í janúar en gæti verið í þjálfarateyminu þangað til.







Derby steinlá í vikunni er Derby tapaði 3-0 fyrir Fulham á útivelli en Cocu staðfesti á blaðamannafundi fyrir helgina að hinn 34 ára gamli Rooney gæti verið á bekknum á laugardag.

Rooney hefur heimsótt Derby í tvígang eftir að hafa samið við félagið en hann er nýkominn heim frá Dúbaí þar sem hann fékk að fara í frí með fjölskyldunni.

Derby er í  13. sæti deildarinnar með 24 stig, þó einungis fimm stigum frá umspilssæti um sæti í deild þeirra bestu, en Derby fór í úrslitaleik umspilsins á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×