Lýðræðissinnar í Hong Kong unnu stórsigur í héraðsstjórnarkosningum þar í dag að sögn staðarblaða. Fylla þurfti 452 sæti í héraðsstjórninni. Þegar þetta er skrifað höfðu lýðræðissinnar unnið 201 sæti af þeim 241 þar sem niðurstöður lágu fyrir. Þeir sem eru hliðhollir yfirvöldum í Peking höfðu náð aðeins 28 sætum.
Því er ljóst að töluverð breyting verður á skipan héraðsstjórnarinnar því að fyrir kosningarnar var meirihluti héraðsstjórnarmanna hliðhollur yfirvöldum í Peking.
Metfjöldi greiddi atkvæði í kosningunum. Talið er að kjörsókn hafi verið 71 prósent sem þýðir að um 2,9 milljónir greiddu atvæði í kosningunum. Aðeins 47 prósent þeirra sem eru á kjörskrá greiddu atkvæði í síðustu héraðsstjórnarkosningum sem haldnar voru árið 2015.
Litið hefur verið á kosningarnar sem prófstein á stuðning við Carrie Lam, æðsta leiðtoga Hong Kong. Mótmælendur sem barist hafa fyrir lýðræðisumbótum vonuðust til þess að senda kínverskum stjórnvöldum skýr skilaboð nú þegar mótmæli hafa staðið yfir í um fimm mánuði í Hong Kong.
Langar raðir mynduðust við kjörstaði strax í morgun en óttast hefur verið að kjörstöðum kynni að verða lokað ef átök myndu brjótast út. Skipuleggjendur mótmælanna höfðu hvatt mótmælendur til að halda friðinn á kjördag til að koma í veg fyrir það, en kosningarnar virðast farið friðsamlega fram að því er BBC greinir frá.
Héraðsstjórnin hefur aðallega stjórn á hversdagslegum málum á borð við almenningssamgöngur og sorpmál. Héraðsstjórnarmenn hafa þó einhver ítök þegar kemur að því að velja æðsta stjórnanda Hong Kong.
Lam, sem gegnir því embætti, greiddi atkvæði í kosningunum og hét hún því að hún myndi hlusta betur á héraðsstjórnarmenn.
Fréttaritari BBC í Hong Kong segir að enginn hafi getað gert sér í hugarlund að lýðræðissinnar myndu vinna svo mikinn stórsigur í kosningunum, ljóst sé að þrýstingur á Lam um að hlustað verði á kröfur mótmælanda muni aukast vegna úrslita kosninganna.
Erlent
Lýðræðissinnar unnu stórsigur í Hong Kong
Tengdar fréttir
Segja Bandaríkjamönnum að skipta sér ekki af Hong Kong
Kínverjar hafa skilgreint alla gagnrýni á ástandið í Hong Kong og meðhöndlun yfirvalda á mótmælendum sem skammarverð afskipti af innanríkismálum Kína.
Eldsprengjur og táragas við tækniháskólann
Lögregla kínverska sjálfsstjórnarsvæðisins Hong Kong gerði í dag áhlaup á mótmælendur sem reyndu að draga athygli lögregluþjóna frá háskóla í borginni. Þar hafa mótmælendur hreiðrað um sig og setið fastir undanfarna daga.
Metfjöldi hefur greitt atkvæði í kosningunum í Hong Kong
Metfjöldi hefur þegar greitt atkvæði í kosningum til héraðsstjórnar sem fara fram í Hong Kong í dag. Um hádegi að staðartíma í dag höfðu þegar fleiri greitt atkvæði en í síðustu kosningum 2015.
Grímubann í Hong Kong brýtur gegn stjórnarskrá
Æðsti dómstóllinn í Hong Kong hefur dæmt að grímubannið sem stjórnvöld í sjálfstjórnarhéraðinu komu á í síðasta mánuði brjóti í bága við stjórnarskrá svæðisins.