Magnaður sex marka leikur er United-liðin skildu jöfn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Greenwood skorar í kvöld.
Greenwood skorar í kvöld. vísir/getty
Sheffield United og Manchester United gerðu 3-3 jafntefli í frábærum fótboltaleik er liðin mættust á heimavelli Sheffield í dag.

Eftir jafnteflið er Man. Utd í 9. sæti deildarinnar með sautján stig en Sheffield United er 6. sætinu með átján stig.

John Fleck kom Sheffield yfir á 19. mínútu eftir stoðsendingu frá Lys Mousset sem nýtti sér mistök Phil Jones, sem fékk langþráð tækifæri í miðri vörn Manchester United.

Jones var skipt af velli í hálfleik og inn kom Jesse Lingard en á sjöundu mínútu síðari hálfleiks tvöfaldaði Lys Mousset forystuna. Andreas Pereira missti boltann á miðjunni, gestirnir geystust upp og skoruðu.





Gestirnir frá Manchester voru þó ekki af baki dottnir. Brandon Williams, fæddur árið 2000, minnkaði muninn á 72. mínútu og fimm mínútum síðar jafnaði Mason Greenwood, fæddur árið 2001, metin eftir að hafa komið inn sem varamaður.





Marcus Rashford gaf laglega sendingu fyrir markið og Greenwood var vel vakandi í teignum. Endurkoman var svo fullkomnuð á 79. mínútu er Marcus Rashford skoraði eftir stórkostlega spilamennsku United.

Dramatíkinni var ekki lokið því í uppbótartíma jafnaði Oli McBurnie metin eftir darraðadans í vítateig gestanna. Lokatölur 3-3 ævintýralegt jafntefli.





Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira