Enski boltinn

Sol­skjær viss um að Mourin­ho fái góðar mót­tökur | Pogba enn á meiðsla­listanum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mourinho og Solskjær mætast annað kvöld.
Mourinho og Solskjær mætast annað kvöld. vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, sat fyrir svörum blaðamanna á fjölmiðlafundi í morgun en United spilar við Tottenham annað kvöld í stórleik á Old Trafford.

Gengi United hefur verið mjög dapurt á tímabilinu en þetta er versta byrjun liðsins síðan tímabilið 1988/1989. Á morgun mætir liðið svo sínum fyrrum stjóra, Jose Mourinho.

Mourinho tók við Tottenham af Mauricio Pochettino sem var rekinn fyrir tveimur vikum síðan en hann mætir á Old Trafford á morgun í fyrsta sinn eftir að hann var rekinn frá félaginu í desember 2018.

Norðmaðurinn Solskjær er viss um að allir hjá félaginu munu taka vel á móti Portúgalanum sem vann meðal annars Evrópudeildina með félaginu.







„Hann fær góðar móttökur. Stuðningsmennirnir muna eftir honum og hann vann bikara. Ég held að hann fái hundrað prósent góðar móttökur frá stuðningsmönnum, félaginu, þjálfarateyminu og öllum,“ sagði Solskjær á blaðamannafundinum í morgun.

Það eru þó slæmar fréttir fyrir Manchester United en Paul Pogba hefur enn ekki náð sér af meiðslum sem hafa haldið honum frá keppni síðustu vikur.

„Hann er ekki tilbúinn. Það er enn eitthvað í hann en hann er að leggja hart að sér. Hann er kominn út á grasið svo við munum sjá hversu lengi þetta verður,“ sagði Solskjær.

Hann bætti þó við að Scott McTominay og Nemanja Matic væru orðnir leikfærir og gætu spilað annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×