Enski boltinn

Segja launalækkun leikmanna skaða heilbrigðiskerfið

Sindri Sverrisson skrifar
Aaron Wan-Bissaka og Gylfi Þór Sigurðsson í baráttu í leik í ensku úrvalsdeildinni. Keppni hefur legið niðri frá því um miðjan mars vegna kórónuveirufaraldursins.
Aaron Wan-Bissaka og Gylfi Þór Sigurðsson í baráttu í leik í ensku úrvalsdeildinni. Keppni hefur legið niðri frá því um miðjan mars vegna kórónuveirufaraldursins. VÍSIR/GETTY

Leikmannasamtökin á Englandi segja að það myndi bitna á heilbrigðiskerfinu í landinu ef að knattspyrnumenn tækju á sig 30% launalækkun. Ekki náðust samningar um slíka lækkun á fundi samtakanna með ensku úrvalsdeildinni í gær.

Enska úrvalsdeildin vill að allir leikmenn lækki um 30% í launum til þess að vernda störf og styðja við rekstur knattspyrnufélaganna á tímum kórónuveirufaraldursins. Leikmannasamtökin segja hins vegar að slík lækkun myndi fela í sér samtals yfir 500 milljóna punda lækkun launa og þar með 200 milljóna punda lækkun skatta til breska ríkisins.

„Hvaða áhrif hefði þessi lækkun á tekjum til ríkisins á heilbrigðiskerfið? Var þetta haft í huga þegar enska úrvalsdeildin lagði fram sína tillögu og hugsaði heilbrigðisráðherra út í þetta þegar hann bað leikmenn um að taka á sig launalækkun?“ sagði í yfirlýsingu leikmannasamtakanna eftir fundinn í gær.

Leikmannasamtökin sögðu jafnframt að allir leikmenn deildarinnar myndu leggja sitt að mörkum fjárhagslega á þessum fordæmalausu tímum. Samtökin myndu einnig glöð halda áfram viðræðum við forsvarsmenn deildarinnar. Þau telja að tillaga deildarinnar um að styðja við heilbrigðiskerfið um 20 milljónir punda sé ágæt en að upphæðin ætti að vera mun hærri. Samningaviðræður munu halda áfram á næstu dögum.


Tengdar fréttir

Liverpool nýtir neyðarúrræði stjórnvalda

Enska knattspyrnufélagið Liverpool, efsta lið úrvalsdeildarinnar, hefur ákveðið að senda hluta starfsmannahóps síns í leyfi nú þegar algjört fótboltahlé er í Englandi vegna kórónuveirufaraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×