Enski boltinn

Elton John sagði næstum því frá leyndarmálinu um Man. United á miðjum tónleikum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark Viduka, Sir Elton John og Sir Alex Ferguson.
Mark Viduka, Sir Elton John og Sir Alex Ferguson. Samsett/EPA

Margar skemmtilegar sögur eru að koma fram dagsljósið nú þegar knattspyrnuáhugamenn þyrstir í ferskar fréttir úr fótboltaheiminum. Í stað umfjöllunar um leiki og mót eru miðlar duglegir að fá kunna kappa til að rifja upp góðar sögur frá ferlum sínum.

Ástralski knattspyrnumaðurinn Mark Viduka er einn af þeim sem átti skemmtilega sögu frá ferli sínum en hann sló í gegn í ensku úrvalsdeildinni í byrjun þessarar aldar.

Mark Viduka hafði stimplað sig inn á sínu fyrsta tímabili með Leeds United í ensku úrvalsdeildinni. Leeds fékk hann frá Celtic í Skotlandi sumarið 2000 og Mark Viduka skoraði 17 mörk á fyrsta tímabilinu þar sem Leeds náði fjórða sætinu í deildinni.

Mark Viduka sagði frá samskiptum sínum og hins heimsfræga tónlistarmanns Elton John. Elton bauð honum á tónleika sína í Manchester og þeir hittust fyrir tónleikana.

Mark Viduka var nefnilega í hálfgerðu sjokki á miðjum tónleikunum þegar þegar það leit út fyrir að Elton John væri að fara að segja frá leyndarmáli hans upp á sviði á miðjum tónleikum.

Mark Viduka var þá kominn til Manchester borgar til að hitta Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóra Manchester United, á leynifundi þar sem þeir ræddu saman möguleikann á því að United myndi ná í hann frá Leeds.

Viduka missti þetta út úr sér þegar hann hitti Elton John fyrir tónleikanna en bjóst ekki við því að Elton færi að blaðra um það upp á sviði.

„Ég tileinka næsta lag til vini mínum Mark sem er í Manchester og þarf að taka stóra ákvörðun,“ sagði Elton John við tónleikagesti en sagði sem betur fer ekki meira.

„Ég hugsaði bara. Andskotinn, gerðu það ekki segja meira,“ rifjaði Mark Viduka upp. Elton sagði ekki meira heldur henti bara í næsta lag.

Mark Viduka andaði því léttar og ekkert varð síðan úr félagaskiptum hans til Manchester United þetta sumar.

Hann spilaði þrjú tímabil til viðbótar með Leeds United og skoraði 59 mörk í 130 deildarleikjum með liðinu.

Viduka fór til Middlesbrough árið 2004 og spilaði síðan tvö síðustu tímabilin sín með Newcastle United frá 2007 til 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×