Enski boltinn

Lampard: Allt of snemmt að bera Gilmour saman við Scholes

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Hinn 18 ára gamli Billy Gilmour í baráttu við Mohamed Salah.
Hinn 18 ára gamli Billy Gilmour í baráttu við Mohamed Salah. vísir/getty

Frank Lampard, stjóri Chelsea, hefur mikla trú á miðjumanningum unga, Billy Gilmour, sem var á góðri leið með að vinna sér inn byrjunarliðssæti í liðinu þegar ensku úrvalsdeildinni var slegið á frest á dögunum.

Blaðamenn í Englandi hafa keppst við að tala upp hinn skoska Gilmour að undanförnu og hefur honum meðal annars verið líkt við Paul Scholes sem gerði garðinn frægan með Manchester United á árum áður.

Lampard svaraði þessum samanburði í viðtali við Sky Sports um helgina.

„Paul Scholes er augljóslega einn besti miðjumaður sem ég hef mætt í ensku úrvalsdeildinni. Hann valdi alltaf réttu sendinguna og hafði ótrúlega yfirsýn. Ef þú reyndir að nálgast hann gat hann spilað þig út áreynslulaust. Billy (Gilmour) hefur sýnt að hann hefur álíka eiginleika,“ segir Lampard.

„Ég ætla ekki að bera hann saman við Scholesy, alls ekki, en ég skil samlíkinguna því hann hefur sýnt ákveðin líkindi og vonandi getur hann byggt á því til að skapa sér góðan feril,“ segir Lampard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×