Enski boltinn

Segja að Everton vonist nú til að fá tuttugu milljónir fyrir Gylfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson hefur oft verið með fyrirliðabandið hjá Everton.
Gylfi Þór Sigurðsson hefur oft verið með fyrirliðabandið hjá Everton. Getty/Chris Brunskill

Nýjasta Gylfa slúðrið frá Englandi er að Everton vonist nú til þess að „tapa“ bara 25 milljónum þegar þeir selja Gylfa Þór Sigurðsson í sumar.

Everton er sagt ætla að styrkja liðið sitt með stjörnuleikmönnum í sumar en með hverjum deginum aukast líka sögusagnir um að liðið ætli líka að selja dýrasta leikmanninn í sögu félagsins.

Football Insider hefur það eftir heimildarmönnum sinnum á Goodison Park að Everton hlusti nú eftir tilboðum í íslenska landsliðsmanninn Gylfa Þór Sigurðsson.

Gylfi er þrítugur og á eftir tvö ár af samningi sínum. Þetta hefur verið erfitt tímabil fyrir Gylfa því hann hefur ekki komið að mörgum mörkum á leiktíðinni og þá hefur hann einnig spilað aftan á vellinum en hann er vanur.

Everton keypti Gylfa frá Swansea City árið 2017 fyrir 45 milljónir punda og hefur ekki borgað svo mikið fyrir annan leikmann. Samkvæmt frétt Football Insider þá binda nú forráðamenn Everton vonir til þess að ná að selja Gylfa fyrir tuttugu milljónir og „tapa“ bara 25 milljónum pundum.

Carlo Ancelotti ætlar að koma Everton í topp fjögur á næstu árum og það lítur út fyrir að hann telji best að gera það án þátttöku Gylfa. Gylfi var samt að fá að spila mikið hjá Ítalanum en Carlo Ancelotti færði hann þó mun aftar á völlinn.

Gylfi hefur byrjað 23 sinnum inn á vellinum í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni og er alls með eitt mark og tvær stoðsendingar í 26 leikjum.

Í fyrra var Gylfi með 13 mörk og 6 stoðsendingar í 38 leikjum en fyrsta tímabil hans með Everton skoraði Gylfi 4 mörk og gaf 3 stoðsendingar í 27 leikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×