Enski boltinn

Gamla Ís­lendinga­liðið með jafn marga eig­endur og sigur­leiki á árinu 2020

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hermann Hreiðarsson í baráttunni við Hernan Crespo á tíma sínum hjá Charlton.
Hermann Hreiðarsson í baráttunni við Hernan Crespo á tíma sínum hjá Charlton. vísir/getty

Það hefur mikið gengið á hjá Charlton á árinu 2020 en liðinu hefur gengið skelfilega í ensku B-deildinni það sem af er leiktíð. Liðið er í 22. sæti, tveimur stigum frá öruggu sæti í deildinni á næstu leiktíð.

Charlton hefur einungis unnið þrjá leiki af þeim þrettán sem þeir hafa spilað á árinu 2020. Liðið vann 2-1 sigur á Barnsley 1. febrúar, tíu dögum seinna unnu þeir 1-0 sigur á Nottingham Forest og 3-1 sigur á Luton 22. febrúar.

Það er ekki bara inni á vellinum sem allt hefur verið í tómu tjóni hjá Charlton. Liðið hefur haft þrjá eigendur á árinu 2020 en viðskiptajöfurinn Paul Elliott er nú eigandi liðsins. Hann tekur við félaginu af East Street fjárfestingarfélaginu en þeir tóku við félaginu í janúar af hinum óvinsæla Roland Duchatelet.

Hermann Hreiðarsson gerði garðinn frægan með liðinu á árunum 2003 til 2007 en hann spilaði rúmlega 130 leiki fyrir félagið. Jóhann Berg Guðmundsson spilaði einnig með liðinu frá 2014 til 2016 áður en hann gekk í raðir Burnley. Rúrik Gíslason var einnig samningsbundinn liðinu á árunum 2005 til 2007 en spilaði ekki leik fyrir aðallið félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×