Enski boltinn

David Luiz allt í öllu er Arsenal tapaði fyrir City

Anton Ingi Leifsson skrifar
David Luiz fær að líta rauða spjaldið.
David Luiz fær að líta rauða spjaldið. vísir/getty

David Luiz átti erfiðan dag er Arsenal tapaði 3-0 fyrir Manchester City í öðrum leik dagsins en dagurinn í dag markaði upphafið að 92 leikjum á næstu vikum er enska úrvalsdeildin verður kláruð.

City-menn voru sterkari framan af leik en Arsenal þurfti að gera tvær breytingar á liði sínu á fyrstu 22 mínútunum. Granit Xhaka og Pablo Mari fóru báðir af velli vegna meiðsla og Daniel Ceballos og David Luiz komu inn.

Raheem Sterling kom City yfir eftir hörmuleg mistök David Luiz í uppbótartíma fyrri hálfleiks en fram að því hafði Sterling farið illa með góð færi. Heimamenn í City 1-0 yfir eftir fyrri hálfleikinn.

Martraðardagur David Luiz var ekki á enda. Síðari hálfleikur var ekki nema fimm mínútna gamall er hann missti Riyad Mahrez frá sér, braut á honum og vítaspyrna var dæmd. Í þokkabót fékk Luiz rauða spjaldið. Kevin De Bruyne fór á punktinn og skoraði af öryggi.

Hlé þurfti að gera á leiknum undir lok leiksins er markvörðurinn Ederson og Eric Garcia lentu illa saman. Miðvörðurinn var borinn af velli en varamaðurinn Phil Foden bætti við þriðja markinu í uppbótartíma. Lokatölur 3-0.

City er í 2. sætinu, 22 stigum á eftir Liverpool, en Bítlaborgarliðið getur þar af leiðandi ekki tryggt sér titilinn um helgina. Arsenal er í 9. sætinu, 20 stigum á eftir City.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×