Enski boltinn

Skúrkurinn mætti í viðtal og baðst afsökunar: Vill nú vera áfram hjá félaginu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Luiz fær að líta rauða spjaldið í gær.
Luiz fær að líta rauða spjaldið í gær. vísir/getty

David Luiz, varnarmaður Arsenal, átti allt annað en góðan dag í gær er enski fótboltinn snéri aftur. Arsenal mætti Manchester City á útivelli og tapaði 3-0 eftir m.a. tvö mistök frá Luiz.

Luiz mistókst að hreinsa boltann í fyrsta markinu sem Raheem Sterling skoraði og í öðru markinu fékk hann dæmda á sig vítaspyrnu og rautt spjald. Martraðardagur hjá Luiz sem kom inn á varamaður í fyrri hálfleik.

„Þetta var ekki liðinu að kenna heldur var þetta mér að kenna. Stjórinn var magnaður, leikmennirnir voru magnaðir en þetta var bara mér að kenna,“ sagði Luiz í samtali við Sky Sports í gær.

Luiz hefur verið orðaður burt frá Arsenal en samningur hans við félagið rennur út í sumar. Hann hefur m.a. verið orðaður við Benfca þar sem hann lék áður en hann færði sig yfir til Englands.

„Ég hefði átt að taka aðrar ákvarðanir á síðustu tveimur mánuðum. Ég gerði það ekki og þetta snýst um samninginn minn,“ en hann var spurður hvaða ákvarðanir hann hefði átt að taka öðruvísi:

„Aðrar ákvarðanir til þess að reyna koma framtíð minni á hreint sem fyrst en ég gerði það ekki. Ég vil ekki nota það sem afsökun, þetta var mín sök og þannig er það.“

„Ég elska að vera hér og það er ástæðan fyrir því að ég legg hart að mér og ástæðan að ég er hérna núna. Enginn bað mig um að tala en þetta var undir mér komið að sýna andlit mitt. Ég vil vera áfram. Stjórinn veit og vill að ég verði áfram og við erum að bíða eftir lokaákvörðun,“ sagði Luiz.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×