Enski boltinn

Segir að nokkrir leik­menn Man. United eigi ekki skilið að fá að vera í klefanum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Peter Schmeichel, goðsögn hjá Man. Utd.
Peter Schmeichel, goðsögn hjá Man. Utd. vísir/getty

Peter Schmeichel, sem gerði garðinn frægan með Manchester United á árunum 1991 til 1999, segir að það séu leikmenn hjá félaginu sem vilji alls ekki vera þar. Þá þurfi félagið að losa sig við.

Schmeichel lék með núverandi stjóra liðsins, Ole Gunnar Solskjær, á tíma sínum hjá félaginu og segir fyrrum markvörðurinn að Norðmaðurinn sé að gera magnað starf.

Þegar talið barst að leikmannahópi liðsins segir Schmeichel að Ole hafi gert gott mót við að losa sig við nokkra leikmenn en það þurfi að taka enn frekar til hendinni.

„Ég sagði það í viðtali fyrir löngu, löngu síðan - þegar Ole mætti, að mikilvægasta verkefnið væri ekki að fá leikmenn, heldur að losa sig við leikmenn,“ sagði Daninn í samtali við MUTV.

„Það eru nokkrir leikmenn í hópnum sem vilja alls ekki vera þarna. Þeir eru ekki að spila fyrir merkið og þeir eru að þarna til þess að skapa nafn fyrir þá sjálfa.“

„Ég var að lesa um einn leikmann sem var að reyna búa til merki eins og Beckham, sem er átakanlegt, en það eru leikmenn sem eiga ekki skilið að fá að vera í klefanum.“

„Ég held að Ole hafi gert vel að taka þá úr myndinni svo við munum bara að þeir eru hluti af hópnum þegar við tölum um þá eða lesum um leikmannahópinn. Hann hefur gert frábært starf.“

Schmeichel segir einnig að félagið eigi að halda tryggð við Spánverjann David de Gea en hann hefur verið mikið gagnrýndur á leiktíðinni.

„David er okkar markvörður númer eitt. Hann er enn ungur. Hann gæti spilað í tíu ár í viðbót. Stöndum á bak við hann. Við ættum að styðja það sem við erum með því við vitum að það sem við höfum er mjög gott.“

„Hann hefur verið stórkostlegur fyrir okkur. Það er enginn vafi á því. Hann hefur staðið í markinu í erfiðasta skeiði Manchester United,“ sagði sá danski.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×