Enski boltinn

Chelsea sagt tilbúið að eyða hundrað milljónum evra í Oblak

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jan Oblak i leik með Atletico Madrid á móti Liverpool í Meistaradeildinni.  Hann er hér á undan Mohamed Salah í boltann.
Jan Oblak i leik með Atletico Madrid á móti Liverpool í Meistaradeildinni.  Hann er hér á undan Mohamed Salah í boltann. EPA-EFE/PETER POWELL

Spænska blaðið AS slær því upp að Chelsea sé tilbúið að borga hundrað milljónir evra fyrir slóvenska markvörðinn Jan Oblak hjá Atletico Madrid. Það gera 90,7 milljónir punda og sextán milljarðar íslenskra króna.

Það eru bara tæp tvö ár síðan að Chelsea borgaði 80 milljónir evra fyrir spænska markvörðinn Kepa Arrizabalaga en Kepa hefur ekki staðið undir væntingum á Stamford Bridge.

Chelsea gerði Kepa þá að dýrasta markverði fótboltasögunnar og hann er það ennþá. Kepa Arrizabalaga sló þá metið sem Alisson Becker átti um tíma.

Kepa Arrizabalaga gæti vissulega verið hluti af kaupunum á Oblak en Chelsea mun væntanlega losa sig við hann kaupi félagið nýjan aðalmarkvörð. Með því gæti Lundúnafélagið lækkað kaupverðið verulega.

Frank Lampard vill greinilega breyta um markvörð og það eru fáir betri markverðir í heiminum en einmitt hinn 27 ára gamli Jan Oblak.

Jan Oblak er tveimur árum eldri en Kepa Arrizabalaga sem skiptir þó minna máli í tilfelli markvarða. 27 ár er enginn aldur fyrir markvörð og Jan Oblak ætti að eiga sín bestu ár eftir.

Atlético Madrid hefur engan áhuga á því að missa Jan Oblak en það eru hins vegar mjög miklir peningar í boði fyrir hann á erfiðum tímum.

Jan Oblak skrifaði undir nýjan samning árið 2019 og rennur hann ekki út fyrr en árið 2023. Það er hægt að kaupa upp samninginn hans fyrir 120 milljónir evra sem er ekki mjög langt frá því sem Chelsea virðist vera tilbúið að borga fyrir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×