Enski boltinn

Slæmar fréttir fyrir Leicester í baráttunni við United

Sindri Sverrisson skrifar
James Maddison er algjör lykilmaður í liði Leicester sem berst fyrir Meistaradeildarsæti.
James Maddison er algjör lykilmaður í liði Leicester sem berst fyrir Meistaradeildarsæti. VÍSIR/GETTY

Leicester verður án mikilvægra leikmanna í þeim tveimur leikjum sem liðið á eftir í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, þar sem liðið á í harðri baráttu við Manchester United um Meistaradeildarsæti.

Leicester og United eru stigi á eftir Chelsea sem er í 3. sæti, og eiga eftir að mætast á heimavelli Leicester í lokaumferðinni. Áður en að því kemur mætir Leicester liði Tottenham á útivelli, en United fær West Ham í heimsókn.

Nú er orðið ljóst að miðjumaðurinn James Maddison og varnarmennirnir Ben Chilwell og Christian Fuchs verða ekki með í þessum leikjum. Maddison er meiddur í mjöðm og Chilwell í læri, en þeir verða væntanlega löngu orðnir klárir í slaginn þegar England mætir Íslandi á Laugardalsvelli 5. september.

Fuchs er hins vegar meiddur í nára og verður líklega frá keppni í þrjá mánuði, að sögn Brendan Rodgers knattspyrnustjóra Leicester.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×