Enski boltinn

Ó­­sáttur við David de Gea og segir hann gera „skóla­­pilta­mis­tök“

Anton Ingi Leifsson skrifar
David de Gea er markvörður Manchester United.
David de Gea er markvörður Manchester United. vísir/getty

Manchester United goðsögnin, Paul Ince, segir að markvörðurinn spænski, David de Gea, sé að gera sig seka um skólapiltamistök og að hann þurfi að bæta sinn leik svo um munar.

Spánverjinn gerði sig seka um tvö mistök í undanúrslitaleik enska bikarsins gegn Chelsea um helgina en United er úr leik eftir 3-1 tap á Wembley á sunnudaginn.

„Öll mistök sem þú gerir, þegar þú ert markvörður, verða stór. Við vitum það en það sem við erum að sjá frá David de Gea núna eru skólapiltamistök. Þetta eru mistök sem einhver á hans launum og hans gæðum geta ekki verið að gera og þetta er ekki í fyrsta skiptið,“ sagði Ince.

Ince bendir einnig á það að þótt sá spænski hafi átt nokkrar góðar markvörslur í leiknum þá geti hann ekki gert þessi mistök sem hann var sekur um.

„Ef þú lítur yfir tímabilið þá eru nokkur hræðileg mistök sem ættu ekki að eiga sér stað. Þegar þú gerir svona mistök þarftu að koma í næstu leiki og standa upp og bæta upp fyrir gagnrýnina en það lítur út fyrir að hann geti það ekki.“

„Þú þarft að sanna að þú sért markvörður númer eitt. Hann varði nokkrum sinnum vel gegn Chelsea en staðreyndin er sú; að í stórum leikjum eins og þessum þá býstu við því. Í svona stórum leikjum eru bestu markverðirnir í heiminum ekki að gera svona mistök.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×