Lífið

Eva Laufey og Svavar Örn stýra saman Bakaríinu á Bylgjunni

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Eva Laufey og Svavar Örn hafa verið vinir síðan hún var 16 ára gömul. Þau eru spennt fyrir því að stýra saman útvarpsþætti.
Eva Laufey og Svavar Örn hafa verið vinir síðan hún var 16 ára gömul. Þau eru spennt fyrir því að stýra saman útvarpsþætti. Samsett mynd

Svavar Örn Svavarsson hefur fengið  nýjan meðstjórnanda í Bakaríið á laugardögum því Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir bætist við hóp þáttastjórnanda á Bylgjunni um helgina. Eva Laufey mun stýra Bakaríinu með Svavari alla laugardaga frá níu til tólf en hún er fyrsta konan sem stýrir Bakaríinu án þess að vera þar bara í afleysingum.

Þetta er að gerast frekar hratt en ég var ekki lengi að segja já við þessu verkefni,“ segir Eva Laufey í samtali við Vísi en hún fékk þetta boð í vikunni og fyrsti þáttur þessa öfluga tvíeykis verður á laugardaginn. Eva Laufey tekur við af Einari Bárðasyni sem hefur stjórnað þættinum með Svavari undanfarin misseri.

Ég var strax spennt fyrir þessu verkefni þar sem mig hefur langað að vera meira í útvarpinu og fá að prófa þann miðil sem mér finnst mjög spennandi.“

Eva Laufey hefur ekki verið með útvarpsþátt áður en hún hefur leyst af í Bítinu á Bylgjunni og segir að það hafi verið bæði skemmtilegt og lærdómsríkt.

Þetta er spennandi miðill og býður upp á svo margt skemmtilegt, ég er forvitin og mér þykir ótrúlega skemmtilegt að spjalla við fólk um allskonar hluti.  Ég fæ vissulega tækifæri til þess að hitta og spjalla við áhugavert fólk í Íslandi í dag en útvarp er miðill sem býður upp á örlítið meiri léttleika og afslappaðra umhverfi og þess vegna er ég sérlega spennt að prófa mig áfram á þeim miðli.“

Svavar Örn og Einar Bárða hafa stýrt saman Bakaríinu. Eva Laufey segist spennt fyrir því að hafa verið boðið þetta verkefni.Mynd/Bylgjan

Ekki eins prúð og á skjánum

Eva Laufey og Svavar eru miklir vinir og þekkja hvort annað alveg einstaklega vel.  Hann ætlar sér þó að sýna á henni nýja hlið.

„Ég kynntist honum þegar ég var 16 ára. Ég man þetta mjög vel, ég fór í gegnum símaskránna og leitaði að hárgreiðslustofu í Reykjavík, hæ landsbyggð. Ég rambaði á Svavar minn, sem betur fer. Hann hefur því verið hárgreiðslumaðurinn minn og mjög góður vinur í 15 að verða 16 ár. Hann er mjög góður vinur minn, ég leita mikið til hans og það er alltaf hægt að treysta á hann í einu og öllu. Hann er sjúklega skemmtilegur og það er ekki dauð stund í kringum hann.“

Svavar er líka einstaklega spenntur fyrir þessu verkefni og hefur strax sett sér markmið.

„Hann sagði mér um daginn að hans aðal markmið í lífinu væri að sýna fólki að ég væri villingur en ekki eins prúð og ég sýnist í sjónvarpinu. Þannig þetta verður eflaust eitthvað,“ segir Eva Laufey og hlær.

„Ég þekki hann svo vel og hann þekkir mig, við komum úr ólíkum áttum en eigum margt sameiginlegt, það er ekki sjálfsagt að fá tækifæri til þess að starfa með góðum vin og ég er vægast sagt spennt. Svo mun Sindri Sindrason ekki vera langt undan og mun einnig vera með okkur og það er heldur aldrei leiðinlegt í kringum Sindra þannig fólk á von á góðu þori ég að segja, mjög hógvær.“

Eva Laufey fagnaði á dögunum útgáfu þriðju bókar sinnar.Mynd/Instagram

Ætla að skapa góða stemningu

Eva Laufey segir að þau muni eftir fremsta megni hafa gleðina í fyrirrúmi í Bakaríinu.

„Ég er þess vegna sérstaklega spennt að prófa útvarp á laugardögum og þar eru tækifæri til þess að vera afslappaðri, njóta þess að sigla inn í helgina og ræða um daginn og veginn á skemmtilegan hátt. Við munum spjalla við áhugavert og skemmtilegt fólk út um allt land, heyra hvað fólk er að elda, hvað er í gangi í landinu og já svo spjöllum við eflaust mikið um allt og ekki neitt. Okkur langar að skapa góða stemningu og ef okkur tekst það, þá verð ég býsna sátt“

Hún segir að þau muni sjálfsagt gera einhverjar breytingar en fyrst um sinn ætla þau að finna taktinn þeirra á milli og hlusta á það sem hlustendur vilja heyra. Það verður í nógu að snúast hjá Evu Laufey þar sem hún ætlar ekkert að fækka verkefnum sínum á Stöð 2 þrátt fyrir að vera komin með útvarpsþátt. 

„Ég er einmitt að hefja tökur á nýjum þáttum sem heita einfaldlega Í Eldhúsi Evu í þessari viku og ég er einnig í Ísland í dag teyminu og mun halda því áfram. Ég nýt þess i botn að gera það sem mér finnst skemmtilegt, ég fæ að sinna matargerðinni sem ég elska og ég fæ að hitta svo skemmtilegt og áhugavert fólk á hverjum degi, hvað er betra?“

Eva Laufey var gestur í Einkalífinu á síðasta ári og má horfa á innslagið í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Tólf konur valdar í fjölmiðlaþjálfun

Félag kvenna í atvinnulífinu og Ríkisútvarpið hafa hleypt af stokkunum verkefni til þriggja ára sem ætlað er að auka fjölbreytni viðmælenda í íslenskum fjölmiðlum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×