Enski boltinn

Liverpool sæti í Meistaradeildarsæti bara með stigin sín af Anfield

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane og félagar fagna einu af mörgum mörkum sínum á tímabilinu.
Sadio Mane og félagar fagna einu af mörgum mörkum sínum á tímabilinu. Getty/Clive Brunskill

Liverpool sæti í einu af fjórum efstu sætum ensku úrvalsdeildarinnar og ofar en Manchester United þótt liðið fengi aðeins að telja með stigin sín úr heimaleikjunum.

Stigin úr leikjum Liverpool liðsins á Anfield myndu því duga Liverpool til að vinna sér sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Liverpool hefur náð í 73 af 75 mögulegum stigum í fyrstu 25 leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni og er með 22 stiga forskot á liðið í öðru sæti sem en Manchester City. Liverpool er með 38 fleiri stig en Manchester United og 42 fleiri stig en Arsenal.  

Svo mikil er stigasöfnun Liverpool liðsins að það er athyglisvert að skoða hvert stigin á heima- og útivelli myndi skila liðinu í töflunni.

Stig Liverpool á Anfield á þessu tímabili eru 39 talsins en aðeins þrjú lið eru með fleiri stig út úr öllum sínum leikjum eða Manchester City (51 stig), Leicester (49) og Chelsea(41).

Liverpool hefur unnið alla þrettán heimaleiki sína á leiktíðinni og er með fleiri stig á Anfield (39) en Tottenham (37) og Manchester United (35) hafa náð út úr öllum sínum leikjum.

Tottenham og Manchester United myndi reyndar ekki ná Liverpool þótt þau fengju að leggja sín stig saman því þau væru samt einu stigi á eftir Jürgen Klopp og lærisveinum hans.

Árangur Liverpool á útivelli, 11 sigrar og 1 jafntefli í tólf leikjum (34 stig), myndi duga liðinu upp í 8. sæti deildarinnar eða ofar en bæði Everton (33) og Arsenal (31).

Stig efstu liða í ensku úrvalsdeildinni:

1. Liverpool 73 stig

2. Manchester City 51 stig

3. Leicester City 49 stig

4. Chelsea 41 stig

 - Liverpool bara á Anfield 39 stig

5. Tottenham 37 stig

6. Sheffield United 36 stig

7. Manchester United 35 stig

8. Wolves 35 stig

 - Liverpool bara á útivelli 34 stig

9. Everton 33 stig

10. Arsenal 31 stig

11. Burnley 31 stig

12. Newcastle 31 stig

13. Southampton 31 stig




Fleiri fréttir

Sjá meira


×