Stjórnvöld í Hong Kong hafa staðfest fyrsta andlátið í sjálfsstjórnarhéraðinu af völdum Wuhan-kórónaveirunnar. Alls eru nú 425 látnir af veirunni og yfir 20 þúsund tilfelli staðfest, samkvæmt nýjustu tölum frá kínverskum heilbrigðisyfirvöldum.
Tvö andlát vegna veirunnar hafa nú verið skráð utan meginlands Kína. Um helgina lést karlmaður á Filippseyjum og í nótt greindu fjölmiðlar í Hong Kong frá andláti 39 ára karlmanns. Maðurinn var með undirliggjandi, langvinnan sjúkdóm og dvaldi í tvo daga í borginni Wuhan, þar sem veiran er talin eiga upptök sín, í janúar.
Hann greindist með veiruna 31. janúar og var á þeim tímapunkti þrettánda staðfesta tilfellið í Hong Kong. Alls hafa fimmtán greinst með veiruna í sjálfsstjórnarhéraðinu og yfir 150 tilfelli eru staðfest utan Kína.
Mikil ólga er meðal heilbrigðisstarfsmanna í Hong Kong. Þeir krefjast þess að landamærum Hong Kong og meginlands Kína verði lokað að fullu til að hefta útbreiðslu veirunnar og tryggja öryggi stéttarinnar. Hundruð heilbrigðisstarfsmanna sem ekki teljast „ómissandi“ innan geirans lögðu niður störf í gær vegna þessa og verkföll héldu áfram í dag.
Yfirvöld í Hong Kong hafa að hluta gengið að kröfum stéttarinnar. Öllum nema tveimur leiðum inn í Hong Kong frá Kína á láði og legi hefur nú verið lokað. Þá hefur þjónusta á sjúkrahúsum verið skert í gær og í dag vegna verkfallanna.
Forsætisnefnd Kína viðurkenndi í gærkvöldi alvarlega annmarka á viðbrögðum við veirunni, sem talin er eiga upptök sín á markaði í Wuhan. Yfirvöld tilkynntu í gær að hrint yrði af stað átaki í viðleitni til að loka slíkum mörkuðum, sem víða eru starfræktir ólöglega í Kína.