Enski boltinn

Liverpool sex sigrum frá því að fá heiðursvörð frá leikmönnum Man. City á Ethiad

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Manchester United standa heiðursvörð fyrir Eið Smára Guðjohnsen og félaga í Chelsea vorið 2005.
Leikmenn Manchester United standa heiðursvörð fyrir Eið Smára Guðjohnsen og félaga í Chelsea vorið 2005. Samsett/Getty

Liverpool jók forskot sitt á toppi ensku úrvalsdeildarinnar um þrjú stig um helgina og hefur nú 22 stiga forystu á Manchester City í öðru sætinu.

Manchester City getur nú mest náð 90 stigum á þessari leiktíð því liðið á bara eftir þrettán leiki. Það eru því 39 stig eftir í pottinum og City menn eru með 51 stig.

Það þýðir jafnframt að sex sigrar í viðbót (úr síðustu þrettán leikjunum) nægja Liverpool liðinu til að tryggja sér enska meistaratitilinn í fyrsta sinn í þrjá áratugi.



Sjötti leikur Liverpool liðsins frá deginum í dag er heimaleikur á móti Crystal Palace 21. mars næstkomandi.

Liverpool getur þar orðið fyrsta liðið til að vinna ensku úrvalsdeildina í marsmánuði en til að svo verði þarf liðið að vinna næstu fimm leiki á móti Norwich (20. sæti), West Ham (18. sæti), Watford (19. sæti), Bournemouth (16. sæti) og Everton (9. sæti).

Eins og sjá má á sætum liðanna sem bíða Liverpool í næstu leikjum þá eru fjórir næstu mótherjar liðsins allir í fimm neðstu sætum deildarinnar.



Það sem er kannski enn fróðlegra að eftir þessi úrslit í gær gæti Liverpool liðið verið búið að tryggja sér titilinn fyrir seinni leikinn á móti Manchester City en sá leikur fer fram 4. apríl.

Leikmenn Manchester City þyrftu þá að standa heiðursvörð fyrir Liverpoo liðið þegar það gengi inn á Ethiad-völlinn eftir 61 dag.

Það yrði ótrúleg þróun að leikur sem átti að verða úrslitaleikur ensku úrvalsdeildarinnar á leiktíðinni verði á endanum leikur sem skipti engu máli.

Næstu sjö leikir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni:

15. febrúar - Norwich (úti) [1]

24. febrúar - West Ham (heima)     [2]

29. febrúar - Watford (úti) [3]

7. mars - Bournemouth  (heima) [4]

16. mars - Everton (úti) [5]

21. mars - Crystal Palace (heima) [6]    

4. apríl - Manchester City (úti) [7]   




Fleiri fréttir

Sjá meira


×