Erlent

Hræðilegt ástand og mestu fólksflutningarnir í sögu stríðsins

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Héðinn Halldórsson, upplýsingafulltrúi hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, er kominn að landamærum Tyrklands og Sýrlands. Neyðarástand er á svæðinu enda fólksflutningar frá Sýrlandi nú þeir mestu frá því stríð braust þar út fyrir tæpum áratug.

Héðinn var staddur í Bab al-Hawa, Tyrklandsmegin við landamærin, í dag þar sem verið var að hlaða hjálpargögnum í vörubíla sem voru á leiðinni til Sýrlands.

„Hinum megin við landamærin, í Sýrlandi, er ein milljón manna á flótta sem hafa flúið frá því 1. desember 2019. Þetta er eina líflínan til þessa fólks þar sem það er ekkert aðgengi til þeirra frá Sýrlandi sjálfu. Þetta er tæp milljón manna. 80 prósent þeirra eru konur og börn,“ segir Héðinn. Ástandið sé hræðilegt. Fólksflutningarnir séu nú þeir mestu í níu ára sögu stríðsins.

„Eins og stendur er staðan sú að fólk getur hvergi flúið. Sókn stjórnarhersins færist norðar og norðar þannig það rými sem fólk hefur til að vera óhult á verður minna og minna. Helmingur sjúkrastofnanna er starfandi á hálfu bolmagni. Það er skortur á lyfjum og það er skortur almennt á hjálpargögnum.“

Héðinn hefur heyrt frá heilbrigðisstarfsfólki á þeim svæðum þar sem neyðin er hvað mest að álagið sé afar mikið.

„Margir líta svo á að þetta sé lokakaflinn núna í níu ára stríði en þetta er kannski ekki alveg svo einfalt. Stjórnarherinn lítur svo á að þetta sé síðasta fyrirstaðan á þeim vegi að ná öllu landinu undir sína stjórn. Á hinn bóginn ertu svo með ólíka flokka og fylkingar uppreisnamranna sem eru að berjast fyrir lífi sínu. Og eins og svo oft þá ert umeð almenna borgara sem eru á milli steins og sleggju.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×