Enski boltinn

Segist hafa rætt við Jurgen Klopp um að taka við Barcelona

Ísak Hallmundarson skrifar
Mun Klopp taka við Barcelona í nálægri framtíð?
Mun Klopp taka við Barcelona í nálægri framtíð? getty/Laurence Griffiths

Í byrjun næsta árs verða haldnar kosningar um forseta fótboltarisans Barcelona. Einn frambjóðendanna, Jordi Farre, segist hafa rætt við Jurgen Klopp hjá Liverpool um að taka við sem þjálfari liðsins í framtíðinni.

Barcelona, sem er eitt sigursælasta lið Evrópu, er að ganga í gegnum miklar breytingar þar sem gullaldarleikmenn þeirra eru margir hverjir hættir eða komnir á síðasta skeið ferils síns. Liðið féll úr leik í Meistaradeild Evrópu á niðurlægjandi hátt þegar það tapaði 8-2 fyrir Bayern Munchen. Í kjölfarið var Quique Setién rekinn frá félaginu og Ronald Koeman ráðinn í hans stað.

Farre telur að Koeman sé fín bráðabirgðalausn en að Jurgen Klopp sé rétti maðurinn til að leiða Börsunga inn í nýtt gullaldarskeið, enda hefur Klopp náð frábærum árangri sem þjálfari Liverpool á Englandi.

„Við höfum nokkrum sinnum átt samræður við Klopp þar sem að okkar mati þarf Barcelona slíkan þjálfara. Þetta eru sérstakir tímar hjá félaginu og Koeman er góð lausn því hann er goðsögn hjá Barcelona, hann er það sem liðið þarf í augnablikinu,“ sagði Farre og gefur því skóna að ef hann verði kjörinn ætli hann að fá Klopp til að taka við af Koeman.

Það flækir aðeins stöðuna að Klopp sagði í viðtali nýlega að hann ætli mögulega að hætta að þjálfa þegar samningur hans hjá Liverpool rennur út árið 2024. Þjóðverjinn sagði reyndar það sama eftir tíma sinn með Dortmund en var ráðinn til Liverpool sama ár og hann hætti þar og því ekki útilokað að Barcelona verði hans næsti áfangastaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×