Heimsmarkmiðin

Meðan hungur ríkir lifum við aldrei í friðsælum heimi

Heimsljós
Omar, fjögurra ára, situr á hveitsekkjum WFP í Khawlan i Jemen. 
Omar, fjögurra ára, situr á hveitsekkjum WFP í Khawlan i Jemen.  WFP/Mohammed Awadh

Þegar tilkynnt var að Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) fengi friðarverðlaun Nóbels í síðustu viku var að sögn Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNRIC) aðalaáherslan lögð á baráttu hennar við hungur í heiminum. „WFP hefur hins vegar einnig lagt lóð sín á vogarskálarnar í friðarviðleitni og það fór ekki framhjá norsku Nóbelsnefndinni,“ segir í fréttaskýringu UNRIC.

Í tilkynningu nefndarinnar sagði að WFP legði grundvöll að friði á átakasvæðum. “WFP er leiðandi í því að hindra að hungri sé beitt sem vopni í styrjöldum og átökum,” segir jafnframt í rökstuðningi Nóbelsnefndarinnar.

„Það leikur enginn vafi á því. Við getum ekki brotið hungur á bak aftur nema að við bindum enda á átök,“ er haft eftir David Beasley framkvæmdastjóra WFP.

Nóbelsnefndin beindi athygli heimsins að þýðingarmiklu starfi WFP við að aðstoða samfélög sem hungurvofan hefur leikið grátt; starf stofnunarinnar við að koma matvælum til stríðshrjáðra svæða, auk friðarviðleitninnar.

Um 690 milljónir manna í heiminum vita ekki hvenær eða hvernig þeir fá næstu máltíð, að mati Sameinuðu þjóðanna. Hungur er ein mesta ógnin við frið, að mati David Beasley.

„Styrjaldarátökum fylgir hungur og þar sem hungur ríkir þar eru oft átök. Án friðar getum við ekki náð því markmiði að útrýma hungri í heiminum. Á meðan hungur ríkir munum við aldrei lifa í friðsælum heimi.“

WFP er stærsta mannúðarstofnun heims og 17 þúsund manns starfa á hennar vegum, flestir á vettvangi.

„COVID-19 hefur leikið efnahag og samfélög grátt um allan heim. Baráttan um brauðið hefur enn harðnað og kemur ofan á skaðvænleg áhrif loftslagsbreytinga. Þar að auki hefur ofneysla á Vesturlöndum haft í för með sér að auðlindir eru víða að ganga til þurrðar. Næg matvæli eru framleidd í heiminum til að brauðfæða heimsbyggðina en engu að síður er þriðji hver maður vannærður. Það veldur síðan keðjuverkun með hægari framþróun menntunar og auknu atvinnuleysi,“ segir í frétt UNRIC.

Hluti heimsmarkmiða

„Ekkert hungur“ er annað í röð heimsmarkmiðanna sautján um sjálfbæra þróun. Það felur í sér að stefnt er að upprætingu hungurs, að bundinn verði endir á fæðuóöryggi, næring bætt og sjálfbær landbúnaður efldur. Á öllum þessum sviðum er WFP í forystu í heiminum.

Hér eru 10 atriði sem vert er að vita um Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna:

  1. WFP er öflugasta stofnun heims á sviði mannúðarmála og aðstoðar 100 milljónir bágstaddra í 88 ríkjum.
  2. Á hverjum degi eru fimm þúsund og sex hundruð flutningabílar, 30 skip og 100 flugvélar á þönum í starfi fyrir WFP og flytja matvæli og aðrar brýnar nauðsynjar til bágstaddra á sumum af afskekktustu og hættulegustu stöðum heims.
  3. WFP er í framvarðasveit þegar neyðarástand skapast af völdum átaka, veðurfars, farsótta og annarra hamfara. WFP glímir við neyðarástand í 20 ríkjum eða svæðum í heiminum þessa stundina og er orsakanna oftast að leita í vopnuðum átökum.
  4. WFP útvegar 17.3 milljónum barna skólamáltíðir. Með þessu fá börnin betri næringu og geta haldið áfram námi.
  5. Framlög til WFP hafa hækkað á undanförnum árum. Árið 2019 voru þau hærri en nokkru sinni fyrr eða 8 milljarðar Bandaríkjadala; enn vantar 4,1 milljarð til að endar nái saman í starfinu.
  6. WFP er tengiliður á milli smábænda og markaða í meira en 40 ríkjum. Árið 2019 keypti stofnunin matvæli fyrir andvirði 37,2 milljóna dala af smábændum sem framleiða mestan hluta matvæla heimsins.
  7. Hundrað tuttugu og sjö þúsund hektarar lands voru teknir undir framleiðslu og gróðursett á sjö þúsund hektörum á vegum WFP. Þetta eykur fæðuöryggi til lengri tíma og eykur þolgæði gagnvart loftslagsbreytingum.
  8. WFP kom 4,3 milljón smálestum matvæla til nauðstaddra. Það er álíka og 840 þúsund Asíu-fílar að þyngd.
  9. Meira en þrír fjórðu hlutar matar sem WFP kaupir kemur frá þróunarríkjum. Slíkt sparar tíma og fé við flutninga og glæðir staðbundinn efnahag.
  10. WFP leggur áherslu á greiðslur í reiðufé. WFP lætur 2,1 milljarð af hendi rakna með því að afhenda nauðstöddum í 64 ríkjum fé til matarkaupa. Með þessu eykst val og staðbundnir markaðir eflast.

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna er ein helsta samstarfsstofnun Íslands í neyðar- og mannúðaraðstoð.

Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.






×