Enski boltinn

Parker: Ekki hægt að taka svona vítaspyrnu

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Vítaspyrnan ömurlega í uppsiglingu.
Vítaspyrnan ömurlega í uppsiglingu. vísir/Getty

Ademola Lookman var umtalaðasti leikmaðurinn eftir leik West Ham og Fulham í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

Lookman fékk tækifæri til að jafna metin með síðustu spyrnu leiksins þegar vítaspyrna var dæmd en West Ham hafði skömmu áður náð 1-0 forystu.

Hinn 23 ára gamli Lookman steig á punktinn og átti einhverja lélegustu vítaspyrnu sem sést hefur í enska boltanum en hann notaðist við Panenka aðferðina og vippaði boltanum á markið. Vippan var hins vegar laflaus og Lukasz Fabianski, markvörður West Ham, þurfti ekki að hafa sig allan við til að verja spyrnuna.

„Ég er vonsvikinn og reiður. Þú getur ekki tekið svona víti og hann veit það. Hann er ungur leikmaður og er að læra,“ sagði Scott Parker, þjálfari Fulham í leikslok en sagði þó að Lookman yrði ekki refsað fyrir dómgreindarleysið.

„Strákurinn gerði mistök og hann er fyrstur til að skilja það. Þegar þú ert ungur og að læra verður þú að læra hratt. Hann er svekktur, eðlilega. Þetta er hluti af fótboltanum, að þroskast sem leikmenn og sem lið og við munum hlúa að honum,“ sagði Parker.

Fulham eru nýliðar í deildinni og hafa farið rólega af stað; eru með fjögur stig eftir fyrstu átta leiki sína.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×