Enski boltinn

Segir sjö lið eiga möguleika á Englandsmeistaratitlinum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ederson
Ederson vísir/Getty

Brasilíski markvörðurinn Ederson mun standa í ströngu í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni þegar Manchester City og Liverpool munu eigast við á Etihad leikvangnum í Manchester.

Flestir spekingar telja að þessi tvö lið séu þau einu sem eigi möguleika á að vinna deildina enda höfðu þau töluverða yfirburði á síðustu leiktíð þar sem Liverpool hafði að lokum betur.

Ederson hefur varið mark Man City frá árinu 2017 og reiknar með harðari baráttu en nokkru sinni fyrr á toppi deildarinnar.

„Þetta er ekki venjulegt tímabil. Öll sex stóru félögin hafa byrjað vel. Aston Villa, Everton og Southampton hafa einnig sýnt góða frammistöðu í byrjun. Þessi lið hafa marga gæðaleikmenn,“ segir Ederson.

„Þetta tímabil verður öðruvísi og keppnin verður jafnari. Ég held að baráttan um titilinn verði ekki á milli tveggja liða heldur sex eða sjö liða.“

Hann segir leikmenn Man City gera sér grein fyrir mikilvægi leiksins í dag en Liverpool hefur fimm stigum meira en Man City. Síðarnefnda liðið á þó leik til góða og getur komið sér í góða stöðu gagnvart Liverpool með sigri í dag.

„Þetta er leikurinn sem allir hafa beðið eftir, leikmenn og stuðningsmenn. Ég held að þetta verði mjög góður leikur. Við vitum að þeir eru nokkrum stigum á undan okkur en við eigum leik til góða og við þurfum góð úrslit til að minnka bilið,“ segir Ederson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×