Enski boltinn

Gripinn við punggrip og gæti verið á leiðinni í langt bann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Darnell Fisher gæti verið í vandræðum eftir að hafa verið gripinn við punggrip.
Darnell Fisher gæti verið í vandræðum eftir að hafa verið gripinn við punggrip. getty/Rich Linley

Enska knattspyrnusambandið mun skoða atvik úr leik Preston og Sheffield Wednesday í ensku B-deildinni á laugardaginn. Þar virtist Darnell Fisher, leikmaður Preston, tvívegis grípa í kynfæri Callums Paterson, leikmanns Sheffield Wednesday.

Atvikið átti sér stað þegar Sheffield Wednesday átti hornspyrnu í upphafi seinni hálfleiks. Fisher virtist þá grípa í kynfæri Patersons sem reyndi að ná athygli dómara leiksins en án árangurs. Fisher endurtók síðan punggripið.

Atvikið náðist á myndband og verður tekið til rannsóknar hjá aganefnd enska knattspyrnusambandsins. Ef Fisher verður fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér langt bann. Fyrr á þessu ári fékk Joe Marler, landsliðsmaður Englands í ruðningi, tíu vikna bann fyrir að grípa í kynfæri fyrirliða Wales, Alun Wyn Jones.

Leikurinn á Deepdale á laugardaginn var fyrsti leikur Sheffield Wednesday undir stjórn Tonys Pulis sem tók við liðinu á dögunum.

Leikurinn fór þó ekki vel fyrir Pulis og hans menn því Preston vann 1-0 sigur. Tom Barkhuizen skoraði eina mark leiksins á 48. mínútu. Sheffield Wednesday var manni færri nánast allan leikinn eftir að Josh Windass var rekinn af velli á 17. mínútu.

Preston er í 12. sæti ensku B-deildarinnar en Sheffield Wednesday í því 23. og næstneðsta. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×