Enski boltinn

Carragher: Lét leikmenn Man. City líta barnalega út

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane fór oft illa með varnarmenn Manchester City í leik liðanna um helgina.
Harry Kane fór oft illa með varnarmenn Manchester City í leik liðanna um helgina. Getty/Tottenham Hotspur FC

Jamie Carragher talaði vel um Tottenham manninn Harry Kane í gærkvöldi í Monday Night Football þættinum á Sky Sports.

Tottenham vann 2-0 sigur á Manchester City í ensku úrvalsdeildinni um helgina og í uppgjörsþættinum um umferðina á Sky Sports þá nefndi knattspyrnusérfræðingurinn Jamie Carragher sérstaklega frammistöðu Harry Kane í leiknum.

Eftir tapið er Manchester City í þrettánda sæti í ensku úrvalsdeildinni á sama tíma og Harry Kane og félagar í Tottenham sitja í toppsætinu.

Harry Kane hefur dregið sig aðeins aftar á völlinn á þessu tímabili sem er að nýtast Tottenham liðinu vel því hann gaf sína níundu stoðsendingu í sigrinum á Manchester City.

Harry Kane átti líka þátt í fyrri markinu án þess að koma við boltann. Hann hreyfði sig og alla vörnina með góu hlaupi sem gaf Heung-min Son tækifæri á að sleppa í gegn eftir frábæra sendingu frá Tanguy Ndombele.

„Ég ræddi Harry Kane í þessum þætti fyrir mánuði síðan og þá sérstaklega hans nýja stöðu sem tía,“ sagði Jamie Carragher og bætti við:

„Harry Kane er langslyngasti leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni og ég elska það. Ég algjörlega elska það,“ sagði Carragher.

„Ef einhver segir við mig að hann sé að svindla þegar hann fer í grasið þá er ég ekki sammála því. Slíkt er orðið stór hluti af leiknum og þar ráða klókindin,“ sagði Carragher.

Jamie Carragher gagnrýndi leikmenn Manchester City og þá sérstaklega varnarmennina.

„Hann lét varnarmenn Manchester City líta mjög barnalega út því þeir voru svo einfaldir og það var oft eins og þeir skildu ekki út á hvað fótboltinn gengur,“ sagði Carragher.

Tottenham er vissulega á toppnum og eiga bæði næstmarkahæsta og stoðsendingahæsta mann ensku úrvalsdeildarinnar. Framhaldið mun hins vegar reyna á liðið því næstu deildarleikir eru á móti Chelsea, Arsenal, Crystal Palace og Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×